Skoðun

Þjórs­ár­ver ekki þess virði?

Þorgerður María Þorbjarnardóttir skrifar

Það hvað við metum til verðmæta er mismunandi manna á milli. Sem betur fer þá eigum við tól sem búið er að þróa og sammælast um að sé góð til að meta hvaða virkjanaframkvæmdir skuli alls ekki ráðast í og hvaða virkjanahugmyndir geti farið áfram í frekara leyfisveitingaferli.

Aðferðarfræðin heitir Rammaáætlun og hún hefur það hlutverk að flokka í verndarflokk þær virkjanahugmyndir þar sem náttúran er verðmætari ósnortin en virkjuð á meðan þær sem eru metnar hagkvæmari eru settar í nýtingarflokk. Þá hefst hið hefðbundna leyfisveitingarferli og þurfa þessar virkjanir, þrátt fyrir að vera í nýtingarflokki, að standast aðra löggjöf um umhverfismat, mengunarvarnir og fleira sem eru varnaglar umhverfi og samfélagi til handa.

Norðlingaölduveita var á sínum tíma flokkuð í verndarflokk vegna áhrifa sinna á Þjórsárver. Kjalölduveita var svo flokkuð í vernd af faghópi 3. áfanga rammaáætlunar á þeim forsendum að framkvæmdirnar væru svo líkar fyrrnefndri Norðlingaölduveitu og áhrifin álíka, að hægt væri að flokka hugmyndina strax í verndarflokk. Orðrétt segir:

„Þrátt fyrir að nafn virkj­un­ar­kosts­ins sé ann­að, vatns­borð lóns­ins sé lægra, lónið minna og mann­virki neðar í far­veg­inum hafa fram­kvæmd­irnar áhrif á sama land­svæði og því hefur þessi breytta útfærsla virkj­un­ar­kosts­ins ekki áhrif á þessar grunn­for­sendur flokk­un­ar­inn­ar.“

Í pólitískum hrærigraut og hrossakaupum síðustu ríkisstjórnar var virkjunin færð í biðflokk á ný, og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis leggur nú til að halda henni þar áfram, þvert á álit fagráðsins.

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sagði í ræðustól Alþingis að um væri að ræða hagkvæmustu virkjun á Íslandi. Ef virkjunin væri svona hagkvæm þá hefði hún verið flokkuð í nýtingarflokk. Ráðherrann gleymir að faghópur rammaáætlunar er einmitt að meta fórnarkostnað á móti ávinningi í fleiru en peningum. Fórnarkostnaðurinn er ekki síst óafturkræft rask á hjarta landsins, og því hefur hugmyndin þegar verið metin óhagkvæm.

Fullyrðingar um hagkvæmni mega ekki gleyma því að auður okkar er metinn í öðru og meira en fjármagni. Mannauður er ekki síður mikilvægur og svo er það öll verðmætin sem felast í ósnortinni náttúru.

Höfundur er formaður Landverndar.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×