Upp­gjörið: ÍA - Fram 0-1 | Vuk heldur á­fram að skora

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Afturelding - ÍA Besta deild karla sumar 2025
Afturelding - ÍA Besta deild karla sumar 2025

ÍA tókst ekki að ná sér í dýrmæt stig í botnbaráttunni þrátt fyrir komu nýs þjálfara, Lárusar Orra Sigurðssonar, en liðið tapaði á móti Fram á heimavelli í 14. umferð Bestu deildar karla. Gestirnir frá Reykjavík sigruðu 1-0 á Elkem vellinum

Framarar hófu leikinn af krafti og voru strax komnir yfir á 7. mínútu leiksins. Þá skallaði Kennie Chopart boltann fyrir markið eftir hornspyrnu Haraldar Einars Ásgrímssonar og kom Vuk Oskar Dimitrijevic boltanum í netið.

Fram hélt áfram að sækja og setti góða pressu á vörn ÍA með mikið af fyrirgjöfum sem skiluðu þó ekki fleiri mörkum.

Á 39. mínútu fór Rúnar Már Sigurjónsson í tveggja fóta tæklingu á Simon Tibbling sem vakti mikla óánægju meðal stuðningsmanna Fram, dómari leiksins sá ekki tilefni í að spjalda fyrir brotið.

Skömmu síðar, á 43. mínútu, áttu gestirnir gott færi til þess að tvöfalda forystuna en Árni Marinó Einarsson í marki ÍA varði frábærlega.

Rétt fyrir hálfleik slapp Haukur Andri Haraldsson hæglega við gult spjald eftir að hafa dregið Má Ægisson niður. Árni Marinó átti svo aðra glæsilega vörslu á 45. mínútu og hélt ÍA inni í leiknum þegar flautað var til hálfleiks. Staðan 0-1 fyrir Fram í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði af krafti og komust gestirnir í gott færi á 47. mínútu eftir laglega fyrirgjöf Freys Sigurðssonar. Boltinn fór í átt að Vuk Oskari sem taldi sig togaðan niður af Hlyni Sævari Jónssyni í liði ÍA en fékk ekki vítaspyrnu.

Skömmu seinna þurfti dómarinn Vilhjálmur Alvar Þórarinsson að stöðva leikinn vegna meiðsla og yfirgaf völlinn. Guðni Páll Kristjánsson varadómari kom inn á í staðinn.

ÍA sýndi betri takta í seinni hálfleik en þeim fyrri og sóttu meira en áttu þó í erfiðleikum með að koma boltanum á markið. Þrátt fyrir aukinn kraft og baráttu tókst þeim ekki að jafna metin. Niðurstaðan því 0-1 sigur fyrir gestina sem fara með þrjú stig heim og ná að lyfta sér upp í 4. sæti.

Atvik leiksins

Dómaraskiptin á 50. mínútu leiksins en það var strax eftir að gestirnir heimtuðu víti. Vilhjálmur Alvar sást svo með ísingu á kálfanum og hefur því farið meiddur út af.

Stjörnur og skúrkar

Haraldur Einar Ásgrímsson var virkilega öflugur allt þangað til hann var tekinn af velli á 78. mínútu leiksins. Hann átti þátt í fyrsta markinu með hornspyrnu sinni sem endaði á kollinum á Kennie Chopart og lak svo til Vuk Oskars sem skoraði fyrsta markið.

Freyr Sigurðsson, það er ekki hægt að taka af honum boltann og hann hleypur endalaust, þvílíkur demantur fyrir Fram.

Stemning og umgjörð

Umgjörðin hérna á Akranesi er til fyrirmyndar. Rúmlega 1000 manns gerðu sér ferð á leikinn og var virkilega góð stemning hérna á Elkem vellinum.

Dómarar

Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, Gylfi Már Sigurðsson og Eðvarð Eðvarðsson dæmdu leikinn saman þangað til á 50. mínútu þegar Vilhjálmur Alvar neyddist af vellinum vegna meiðsla. Guðni Páll Kristjánsson kom inn á í staðinn og stóð vaktina vel.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira