Innlent

Aldrei séð annan eins hrað­akstur eftir þrjá­tíu ár í lög­reglunni

Jón Ísak Ragnarsson og Bjarki Sigurðsson skrifa
Hannes Þór Guðmundsson er varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Hannes Þór Guðmundsson er varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. sýn

Varðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að hraðakstur hafi verið að aukast undanfarin ár. Hann hafi stöðvað marga ökumenn sem voru að keyra of hratt um helgina, en sem betur fer hafi ekki orðið alvarleg slys.

Ýmsar hátíðir voru haldnar um allt land um helgina, til að mynda Írskir dagar á Akranesi, N1-mótið á Akureyri, Ólafsvíkurvaka og Bíldudals grænar baunir. Íbúar höfuðborgarsvæðisins sem lögðu leið sína út á land streyma því aftur heim eftir vonandi vel heppnaða helgi.

Hannes Þór Guðmundsson segir að það hafi ekki allir verið til fyrirmyndar í umferðinni á heimleiðinni, hvað hraðakstur varðar.

„Við höfum verið um helgina að taka töluvert marga ökumenn sem eru að keyra hratt, en við höfum sem betur fer sloppið við slys.“

Hefur verið meiri hraðakstur en venjulega?

„Já mér finnst þetta vera að aukast svolítið.“

„Ef ég nú tala bara eins og leigubílstjórinn í Spaugstofunni sem var búinn að vinna hérna í 25 ár og sjá allt, ég er búinn að vera í lögreglunni í rúm 30 ár, og finnst þetta aldrei hafa verið verra en núna.“

„Mér finnst ég sjá miklu meiri hraðakstur og meiri ótillitsemi almennt í umferðinni,“ segir Hannes.

Hraðaksturinn hafi ekki endilega verið meiri þessa helgi en aðrar.

„En mér finnst það hafa verið stígandi í þessu undanfarin ár því miður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×