Sport

„Hvert færi og hver sókn var nánast bara mark“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Nikolaj Hansen skoraði þrennu fyrir Víkinga í kvöld.
Nikolaj Hansen skoraði þrennu fyrir Víkinga í kvöld. vísir/Anton

Víkingar unnu eins sannfærandi sigur og þeir gerast í kvöld þegar Malisheva mættu í Víkina fyrir seinni leik fyrstu umferðar Sambandsdeildarinnar í kvöld. Víkingar skoruðu átta mörk gegn engu og flugu áfram í næstu umferð 9-0 samanlagt.

„Geðveikt að vinna stórsigur heima fyrir framan okkar fólk og spila bara mjög vel í dag. Skora átta mörk og þetta var bara frábær leikur“ sagði Nikolaj Hansen framherji Víkinga eftir leik.

Nikolaj Hansen skoraði þrennu í fyrri hálfleiknum og var á eldi áður en hann var síðan tekinn af velli í hálfleik.

„Við vorum bara að refsa þeim og spila mjög vel. Það var líka mjög gott að geta hvílt aðeins menn eftir að komast fimm mörkum yfir. Við erum með stóran leik núna á sunnudaginn og þetta var bara frábært“

Malisheva áttu erfitt uppdráttar í kvöld og voru heldur fljótir að brotna þegar Víkingar náðu inn fyrstu mörkunum í kvöld.

„Já auðvitað en líka bara hvernig við refsum þeim. Við spiluðum bara vel í dag og áttum skilið að vinna stórt“

Víkingar spiluðu frábærlega í kvöld og vildi Nikolaj Hansen meina að leikurinn féll svolítið með þeim.

„Ég held að í þessum leik datt bara allt með okkur. Hvert færi og hver sókn var nánast bara mark og það er frábært að vinna þetta hérna heima“ sagði Nikolaj Hansen að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×