Viðskipti innlent

Gengi Play í frjálsu falli

Árni Sæberg skrifar
Einar Örn Ólafsson er forstjóri Play.
Einar Örn Ólafsson er forstjóri Play. Vísir/vilhelm

Gengi hlutabréfa flugfélagsins Play hafði lækkað um 38 prósent klukkan 10 í morgun, þegar markaðir höfðu verið opnir í hálftíma. Í gær gaf Play út neikvæða afkomuviðvörun.

Eftir lokun markaða í gær sendi Play neikvæða afkomuviðvörun þess efnis að undirbúningur árshlutauppgjörs fyrir annan ársfjórðung 2025 benti til þess að afkoma verði lakari en á sama tímabili í fyrra og undir væntingum.

Þar sagði að fyrirtækið geri ráð fyrir tapi upp á um það bil sextán milljónir Bandaríkjadala, eða um tvo milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi 2025, samanborið við tap upp á tíu milljónir dala, eða 1,2 milljarða króna, á sama tímabili í fyrra.

Í fyrstu viðskiptum í morgun hefur gengi hlutabréfa í félaginu lækkað um tæplega 22 prósent og stóð í 0,47 krónum klukkan 10. Lægst fór gengi í viðskiptum niður í 0,37 krónur, tæplega 40 prósent lægra en við lokun markaða í gær. Í gær var gengið 0,6 krónur á hlut, það lægsta frá upphafi.

Vert er að taka fram að viðskipti með bréf Play hafa verið mjög lítil í morgun. Fjöldi viðskipta er nú átján og veltan aðeins þrjár milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×