Erlent

Mexíkó hafnar aftur her­mönnum Trumps

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Claudia Sheinbaum forseti Mexíkó.
Claudia Sheinbaum forseti Mexíkó. EPA

Yfirvöld í Mexíkó segja að Bandaríkjaher muni ekki fá að ráðast í aðgerðir gegn glæpasamtökum í landinu. Trump er sagður hafa gefið yfirmönnum hersins leynilega skipun um að beita hernum gegn tilteknum glæpasamtökum frá Mið- og Suður-Ameríku, innan landamæra annarra ríkja.

„Bandaríkin munu ekki koma hingað til Mexíkó með herinn. Við vinnum saman, og að sameiginlegum markmiðum, en það verður engin innrás. Við útilokum það algjörlega,“ segir Claudia Sheinbaum, forseti Mexíkó.

New York Times greindi frá áformum Trumps í gær, en fram kom að aðgerðinar beindust gegn glæpasamtökum sem ríkisstjórn hans hafði skilgreint sem hryðjuverkasamtök. Skipunin leggði grunn að mögulegum árásum og áhlaupum á sjó og innan landamæra annarra ríkja.

Í svari við fyrirspurn BBC til Hvíta Hússins um málið var engu svarað um áformin, en sagt var að höfuðáhersla Trumps væri að tryggja öryggi Bandaríkjanna.

Trump skrifaði undir forsetatilskipun fyrr á þessu ári, þar sem átta eiturlyfjaglæpasamtök voru skilgreind sem hryðjuverkasamtök, en þar af voru sex frá Mexíkó.

Claudia Sheinbaum segir að ríkisstjórn hennar viti af væntanlegum boðuðum aðgerðum Trumps gegn glæpasamtökunum, en þær hefðu ekkert með herinn að gera.

„Það er einfaldlega ekki hluti af samkomulaginu, langt því frá. Þegar þetta hefur komið upp, höfum við alltaf svarað neitandi.“

Áður hefur hún sagt að ákvörðun Trumps um að skilgreina glæpahringina sem hryðjuverkasamtök megi ekki verða tækifæri fyrir Bandaríkjamenn að grafa undan fullveldi Mexíkó.

Marco Rubio, utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að skilgreining glæpahringjanna sem hryðjuverkasamtök auðveldi til að mynda leyniþjónustu Bandaríkjanna að afla upplýsinga um þá.

Síðast í maí þá hafnaði Claudia boði Trumps Bandaríkjaforseta um að senda bandaríska hermenn yfir landamærin til að aðstoða í baráttunni við glæpagengi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×