Atvinnulíf

Að púsla saman vinnu, auka­vinnu og lífinu

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Það fylgir því álag að púsla saman vinnu, aukavinnu og lífinu! En þess vegna skiptir svo miklu máli að við horfum á þau atriði sem mögulega geta létt okkur lífið og álagið.
Það fylgir því álag að púsla saman vinnu, aukavinnu og lífinu! En þess vegna skiptir svo miklu máli að við horfum á þau atriði sem mögulega geta létt okkur lífið og álagið. Vísir/Getty

Flest okkar þekkjum það að vinna með námi. Þar sem skólinn var í rauninni starf númer eitt en síðan var það vinnan með skólanum. Sem oftar en ekki skipti okkur jafnvel meira máli því þannig fengum við pening til að lifa!

Það sama gildir almennt um aukavinnu fólks. Því flestir sem starfa í fullu starfi en eru því til viðbótar í aukavinnu, eru í aukavinnunni peninganna vegna.

Sem þýðir að aukavinnan skiptir gífurlega miklu máli þótt aðalvinnan sé hærri launuð.

En hvernig er best að tvinna þetta hvoru tveggja saman og hvaða góðu ráð geta nýst okkur í þessu?

Jú, hér eru dæmi um nokkur atriði til að hafa í huga.

Tímastjórnunin þín; Fyrir utan vinnuna

Flestir velja aukavinnu sem hentar vel með aðalvinnunni. Til dæmis þrif á skrifstofuhúsnæði eftir að dagvinnu lýkur. Eða helgar- og næturvaktir sem ekki rekast á aðalvinnuna okkar. Og svo framvegis.

En það er ekki nóg að hugsa bara um vinnuna og vaktirnar því við þurfum líka að vanda okkur í því hvernig við verjum tímanum utan vinnunnar. Að huga að þessu er einfaldlega ráð til að sporna við því að við brennum út eða upplifum okkur of oft algjörlega búin á því.

Dæmi: 

Ef vinnan okkar er að jafnaði átta klukkustundir á dag en aukavinnan þrír, erum við að jafnaði að vinna ellefu klukkustundir á dag.

Sem þýðir að við erum með ágætis tíma til viðbótar til að nýta í annað. Þó oft skyldur vegna heimilis og barna. Gott er að horfa á dagatalið í heild sinni og reyna að átta okkur með því hvar mögulega getum við tryggt að við séum sjálf að fá einhverja hvíld eða eitthvað svigrúm til að gera eitthvað sem okkur finnst gaman að gera.

Fjármálin: Hversu sýnilegur er ávinningurinn?

Ef ástæðan fyrir því að þú réðir þig í aukavinnu er fjárhagslegs eðlis er um að gera að reyna að stýra fjármálunum þannig að þú sjáir hvernig þú ert að uppskera í hverjum mánuði. 

Einföld leið gæti til dæmis verið að nýta sparibaukana hjá Indó til að setja sér markmið um kostnaðaráætlun eða sparnað fyrir mánuðinn.

Hér er fyrst og fremst verið að horfa til þess að hvatinn að aukavinnunni þinni og öllu þessu álagi, sé þér sýnilegur þannig að þú munir og sjáir alltaf, hvers vegna það er þess virði að standa í þessu öllu saman.

Upplýstu vinnuveitendur

Ekki vera í felum með störfin þín. Það mælist betur fyrir að vinnuveitandinn viti að þú starfar á tveimur stöðum frekar en að þú sért að laumast með aukavinnuna þína. Þetta nýtist sérstaklega vel ef eitthvað kemur upp á og kemur líka í veg fyrir óánægju síðar.

Svo ekki sé talað um það að mörgum vinnuveitendum finnst það einfaldlega vísbending um dugnað ef þú ert til í að vera í aukavinnu líka! 

Aðalmálið er að hvort starfið um sig rekist ekki á hvort annað í tíma eða afkastagetu.

Að hvíla sig

Það segir sig sjálft að það að hvíla sig skiptir miklu máli fyrir fólk sem vinnur meira en í 100% starfi, er í aukavinnu og jafnvel samhliða að sinna alls kyns öðrum skyldum líka; Heimili, börn, maki, stórfjölskylda, fleira.

Að tryggja að við sofum vel er því sérstaklega áríðandi. Enda svefn lykilatriði fyrir okkur öll; ósofinn einfaldlega fúnkerum við ekki eins vel, líður ekki eins vel og dagsformið okkar er almennt erfiðara.

Hér er gott að muna að það sem auðveldar okkur einna mest að púsla saman vinnu, aukavinnu og lífinu þannig að vel sé, er einfaldlega að forgangsraða svefninum!

Ekki blanda vinnutímunum saman

Það skiptir engu máli í hvaða vinnum þú ert, en það er gott að miða við að þú haldir störfunum það aðskildum að þú sért til dæmis ekki að kíkja á tölvupósta eða svara samskiptum út af einni vinnu, á meðan þú ert í hinu starfinu.

Hvort starfið um sig þarf þína óskertu athygli á meðan þú ert að vinna. Að sama skapi er í lagi að vinnan bíði um sinn, ef einhver skilaboð berast eða annað, utan þess tíma sem þú ert að vinna hjá viðkomandi.

Þetta er ekki aðeins fyrir vinnuveitendur heldur líka okkur sjálf. Því okkur líður alltaf betur þegar við vitum að við svo sannarlega erum að gera okkar besta!


Tengdar fréttir

Erfitt að vera mikið einn í vinnu og án mikilla samskipta

Við gerum okkur oft ekki grein fyrir því hvað það eru margir sem vinna einir. Til dæmis í lítilli verslun eða sjoppu, iðnaðarmenn, fólk í sérhæfðum störfum eins og þýðendur eða fólk í fjarvinnu. Fólk í viðgerðarþjónustu og fleira.

Nýtt trend: Sami stjórnandinn að vinna fyrir mörg fyrirtæki

Það hefur ótrúlega margt breyst í atvinnulífinu um allan heim síðustu árin. Ekki aðeins vegna tækniþróunar heldur er það smátt og smátt að verða raunveruleiki að það að vinna frá níu til fimm á einhverjum vinnustað er hægt og rólega að hverfa sem „normið.“

Um forvitna yfirmanninn

Ef það eru einhverjir sem halda að nú séu þeir að detta inn í djúsí neikvæða grein um yfirmenn er best fyrir þá að hætta að lesa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×