Innlent

Vestur­bæjar­laug aftur lokað vegna við­gerðar

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Mynd frá framkvæmdunum í sumar. Mistök voru gerð í grunnvinnu við endurbæturnar.
Mynd frá framkvæmdunum í sumar. Mistök voru gerð í grunnvinnu við endurbæturnar. reykjavík

Vesturbæjarlaug verður lokað klukkan átta í kvöld, og verður hún lokuð í um það bil viku. Í ljós hefur komið galli á málningarvinnu á laugarbotninum, sem hefur valdið því að málningin er tekin að flagna af laugarkarinu.

Frá þessu er greint í tilkynningu Reykjavíkurborgar, en þar segir að viðhaldsframkvæmdir hafi staðið yfir í lauginni í sumar þar sem markmiðið var að bæta aðstöðu gesta og endurnýja eldri mannvirki.

Opnun laugarinnar var svo ítrekað frestað í sumar eftir því sem viðhaldsframkvæmdir drógust á langinn. Laugin var loks opnuð á nýjan leik 19. júlí síðastliðinn.

Sjá einnig: Seinka opnun Vesturbæjarlaugar lítillega

„Nú hefur komið í ljós að málningin er farin að flagna af laugarkarinu sem rekja má til mistaka í grunnvinnu við endurbæturnar.“

„Verktakinn sem bar ábyrgð á verkinu harmar þetta mjög, tekur fulla ábyrgð og mun standa straum af öllum kostnaði við úrbætur,“ segir í tilkynningu borgarinnar.

Tekin hafi verið ákvörðun um að loka lauginni klukkan átta í kvöld, en útlit sé fyrir góð veðurskilyrði til framkvæmda næstu daga, þannig hægt verði að vinna verkið hratt og örugglega.

Stefnt er að því að laugin verðu opnuð aftur áður en skólasund hefst.

„Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að valda. Við hlökkum til að taka á móti gestum að nýju að viðgerð lokinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×