Fótbolti

Óskar Hrafn: Spurningar sem þarf að svara fyrir næsta leik

Árni Jóhannsson skrifar
Óskar Hrafn hefur spurningar um liðið sitt.
Óskar Hrafn hefur spurningar um liðið sitt. Vísir/Diego

Þjálfari KR var að vonum sáttur en samt með spurningar um liðið sitt eftir góðan sigur í kvöld. KR náði að vinna Fram á útivelli og var þetta fyrsti útisigur liðsins í sumar. Sigurinn lyfti Vesturbæingum upp í níunda sæti en leikar enduðu 0-1 og það var örlítið annar blær á KR-ingum í kvöld.

„Það er bara partur af þroskaferli liðs að þurfa að læra leggjast niður og þjást og elta“, sagði Óskar Hrafn eftir að KR marði sigur gegn Fram 0-1 þar sem liðið hans þurfti að hanga á sigrinum.

„Þú sérð bara hvað þetta skiptir miklu máli. Það skiptir miklu máli fyrir leikmennina, stuðningsmennina og félagið að vinna þennan leik. Þannig að maður fer heim glaður en samt með nokkrar spurningar sem ég þarf að svara fyrir næsta leik.“

KR hefur oftar en ekki verið mun sókndjarfara í sínum leik í sumar. Sumir hafa talið það ekki ganga upp til lengdar en í kvöld kvað við annan tón þar sem varnarleikurinn var þéttur og skilaði sigrinum að lokum.

„Það gefur augaleið að liðið er búið að breytast aðeins. Takturinn og áferðin þannig að sóknarleikurinn var svona svolítið eins og nýtt dansspor. Við vorum svolítið að stíga á tærnar á hvorum öðrum. Sérstaklega í seinni hálfleik þannig að við þurfum að finna betri takt“, sagði Óskar þegar hann var spurður um braginn á liðinu en oft hefur liðið verið skarpara fram á við og ekki svona þétt til baka.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×