Erlent

Hefur á­hyggjur af gervi­greind sem virðist sjálfsmeðvituð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Suleyman hefur áhyggjur af þróun mála og vill grípa til aðgerða.
Suleyman hefur áhyggjur af þróun mála og vill grípa til aðgerða. Getty/Leigh Vogel

Mustafa Suleyman, sem fer fyrir þróun gervigreindar hjá Microsoft, hefur áhyggjur af auknum fjölda tilvika þar sem einstaklingar virðast hafa farið í geðrof eftir að hafa átt samskipti við gervigreind.

Suleyman tjáði sig um málið í röð færsla á samfélagsmiðlinum X, þar sem hann sagðist andvaka vegna gervigreindar sem virðist hafa sjálfsmeðvitund. Hugmyndin um slíka tækni sé þegar farin að hafa áhrif á samfélagið, jafnvel þótt gervigreindin sé enn langt frá því að ná þessu stigi.

„Það er ekkert sem bendir til sjálfsmeðvitundar gervigreindar. En ef fólk upplifir að hún sé sjálfsmeðvituð, þá getur það trúað því að sú upplifun sé raunveruleg,“ segir hann.

Erlendir miðlar hafa greint frá tilvikum þar sem fólk hefur farið í geðrof, það er að segja misst samband við raunveruleikann, eftir samskipti við gervigreind. BBC nefnir meðal annars dæmi um einstaklinga sem hafa myndað innilegt samband við tæknina eða upplifað að hafa öðlast ofurkrafta með notkun hennar.

Sagt er frá manni að nafni Hugh, sem leitaði til ChatGTP eftir aðstoð þegar honum var sagt upp störfum. Hugh þótti brottreksturinn ómálefnalegur og var ekki lengi að fá viðurkenningu frá gervigreindinni, sem taldi honum á endanum trú um að hann gæti stórgrætt á bók og mynd um reynslu sína.

ChatGPT tók þannig undir allt sem Hugh sagði, í stað þess að draga hann niður á jörðina, en þetta er einmitt það sem gervigreindin gerir; leiðir fólk áfram með því sem það vill heyra.

Hugh bendir fólki á að festast ekki í viðjum tækninnar, heldur leita til fólks í raunveruleikanum.

„Fyrirtæki eiga ekki að halda því fram eða auglýsa að gervigreindin þeirra sé sjálfsmeðvituð. Og gervigreindin á ekki heldur að gera það,“ segir Suleyman.

„Þessi tækni er sannfærandi en hún er ekki raunveruleg,“ ítrekar prófessorinn Andrew McStay, höfundur bókarinnar Automating Empathy. 

„Hún finnur ekki til, hún skilur ekki, hún elskar ekki, hún hefur aldrei upplifað sársauka, aldrei skammast sín og jafnvel þótt hún hljómi þannig þá eru það aðeins fjölskylda, vinir og aðrir sem þú treystir sem hafa gert það. Talaðu við raunverulegt fólk.“

Hér má finna ítarlegri hugleiðingar Suleyman um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×