Skoðun

Meiri gæði og mun minni á­lögur - Hvera­gerðis­leiðin í leik­skóla­málum

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Halldór Benjamín Hreinsson og Njörður Sigurðsson skrifa

Í málefnasamningi Okkar Hveragerðis og Framsóknar fyrir kjörtímabilið 2022–2026 er lögð sérstök áhersla á að bæta stöðu barnafjölskyldna í Hveragerði. Mikilvægur liður í því markmiði snýr að því að lækka leikskólagjöld með því að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla í allt að sex tíma á dag á sama tíma og öllum börnum 12 mánaða og eldri er tryggt leikskólapláss.

12 mánaða börnum tryggður leikskóli

Með opnun nýs hluta Leikskólans Óskalands undir lok sumars hefur Hveragerðisbær loks náð því markmiði að tryggja öllum börnum frá 12 mánaða aldri leikskólapláss. Þegar núverandi meirihluti tók við árið 2022 hafði um nokkurt skeið ekki tekist að standa við þessa stefnu bæjarins. Til að mæta þeirri stöðu var ákveðið í upphafi kjörtímabilsins að greiða foreldragreiðslur til þeirra fjölskyldna sem ekki fengu pláss fyrir börn sín við 12 mánaða aldur og fram að úthlutun leikskólapláss. Með þessum greiðslum var leitast við að vega upp kostnað sem foreldrar þurftu að bera vegna skorts á leikskólaplássum. Nú er ánægjulegt að segja frá því að öllum börnum í Hveragerði er tryggt leikskólapláss í samræmi við það markmið sem meirihlutinn setti sér í upphafi kjörtímabilsins.

Gjaldfrjálsir tímar á leikskólum

Á kjörtímabilinu hefur verið unnið markvisst að því að lækka leikskólagjöld með því að fjölga gjaldfrjálsum tímum á leikskólum Hveragerðisbæjar. Árið 2022 var boðinn einn slíkur tími, árið 2023 tveir, árið 2024 þrír og frá 1. september 2025 verða þeir orðnir fjórir. Markmiðið er að árið 2026 verði sex tímar gjaldfrjálsir á dag. Þessi aðferð hefur skilað því að leikskólagjöld fyrir átta tíma dvöl á dag hafa lækkað úr 29.256 krónum á mánuði árið 2022 í 16.800 krónur árið 2025, sem samsvarar 43% lækkun.

Á kjörtímabilinu hafa leikskólagjöld i Hveragerði lækkað verulega og biðlistar eru nú auðir sem áður voru þéttsettnir. Það er Hveragerðisleiðin.

  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, formaður bæjarráðs
  • Sandra Sigurðardóttir, forseti bæjarstjórnar
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, bæjarfulltrúi
  • Halldór Benjamín Hreinsson, bæjarfulltrúi
  • Njörður Sigurðsson, bæjarfulltrúi



Skoðun

Sjá meira


×