Fótbolti

Úr B-deild í Meistaradeildina á að­eins átta árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ulrik Saltnes og Alfons Sampsted eftir Evrópuleik Bodö/Glimt í Zagreb í ágúst 2022 þegar norska liðið var nálægt því að komst í Meistaradeildina. Saltnes spilar enn með liðinu en Alfonts fór til Hollands stuttu síðar.
Ulrik Saltnes og Alfons Sampsted eftir Evrópuleik Bodö/Glimt í Zagreb í ágúst 2022 þegar norska liðið var nálægt því að komst í Meistaradeildina. Saltnes spilar enn með liðinu en Alfonts fór til Hollands stuttu síðar. EPA/ANTONIO BAT

Norska fótboltafélagið Bodö/Glimt er komið alla leið í aðalkeppni Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins. Uppkoma þessa félags nyrst í Noregi hefur verið engu öðru lík.

Bodö/Glimt hefur á innan við áratug breyst úr því að vera neðrideildarlið í Noregi í það að vera stærsta félag Noregs og komið í bestu deild í Evrópu.

Fyrir aðeins átta árum þá komst Bodö/Glimt upp úr B-deildinni í Noregi.

Liðið varð norskur meistari í fyrsta sinn árið 2020 en þá var íslenski bakvörðurinn Alfons Sampsted í stóru hlutverki hjá liðinu.

Bodö/Glimt hefur fylgt því eftir með því að vinna fjóra meistaratitla á fimm árum.

Liðið komst fyrst í útsláttarkeppni Sambandsdeildarinnar þrjú ár í röð frá 2022 til 2024 og fór alla leið í undanúrslit Evrópudeildarinnar á síðasta tímabili.

Bodö/Glimt tapaði þá í tveimur leikjum á móti Tottenham sem átti síðan eftir að vinna keppnina.

Norska félagið komst síðan í fyrsta sinn í Meistaradeildina í vikunni eftir að hafa haft betur í umspili á móti austurríska félaginu Sturm Graz, 6-2 samanlagt.

Bodö/Glimt fær nú Manchester City, Juventus, Tottenham og Mónákó í heimsókn til síns nyrst í Noregi á komandi vetri.

Heimavöllur Bodö stendur aðeins norðar en Norðurheimskautsbauginn og það gæti því verið boðið upp á alvöru aðstæður í þessum leikjum í vetur.

Bodö/Glimt fær stórar upphæðir fyrir að spila í Meistaradeildinni og ætti að geta styrkt stöðu sína enn frekar sem stærsta félag í Noregi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×