Innlent

Tvö út­köll vegna veiðar­færa í skrúfum

Samúel Karl Ólason skrifar
Gísli Jóns, björgunarskip á Ísafirði.
Gísli Jóns, björgunarskip á Ísafirði. Landsbjörg

Áhöfn björgunarskipsins Gísla Jóns frá Ísafirði hafði í nógu að snúast í gær. Fara þurfti í tvö útköll þar sem fiskiskip höfðu fengið veiðarfæri í skrúfuna. 

Fyrsta útkallið hófst rétt eftir klukkan sex á laugardag. Þá barst útkall um að fiskiskip hefði fengið veiðarfærin í skrúfuna og þurfti að draga það til hafnar. Gísli dró skipið til Suðureyrar um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi, þar sem landað var úr því.

Í kjölfarið var skipið svo dregið til Ísafjarðar og lauk því starfi rúmlega þrjú í nótt.

Á svipuðum tíma barst vakstöð Landhelgisgæslunnar neyðarkall frá öðru fiskiskipi sem statt var vestur af Dýrafirði. Veiðarfæri höfðu einnig lent í skrúfu þess skips.

Áhöfn Gísla Jóns var nýbúin að binda landfestar þegar seinna útkallið barst.

Um klukkan hálf sjö í morgun, þegar tilkynning frá Landsbjörgu barst, var búið að koma taug milli skipanna og verið að sigla þeim inn á Flateyri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×