Innlent

Hútar réðust inn til Sam­einuðu þjóðanna og tóku ellefu starfs­menn í hald

Agnar Már Másson skrifar
Ísraelsmenn drápu á fimmtudag forsætisráðherra Ísraelsmanna.
Ísraelsmenn drápu á fimmtudag forsætisráðherra Ísraelsmanna. AP

Uppreisnarmenn Húta í Jemen réðust í dag inn í starfsstöðvar Sameinuðu þjóðanna í höfuðborg landsins og tóku ellefu starfsmenn í hald. Þetta gerist í framhaldi af því að Ísraelsmenn felldu for­sæt­is­ráðherra rík­is­stjórn­ar Húta, Ah­med Ghaleb Nass­er al-Rahawi al-Ya­fei, í loftárás á Sanaa á fimmtudag.

Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) greina frá útspili Húta í færslu á X en þar er haft eftir Hans Grundberg, sérstökum sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í Jemen, að hann fordæmi „handahófskenndar handtökur“ á starfsfólki SÞ í Sana og Hodeida í dag. Enn fremur fordæmir hann að Hútar hafi ráðist inn í húsnæði SÞ og lagt hald á hluti. 

Hútarnir fóru meðal annars inn í skrifstofur Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) og UNICEF, að því er CNN hefur eftir yfirlýsingum stofnananna tveggja sem báðar heyra undir SÞ.

„Að minnsta kosti 11 starfsmenn SÞ voru handteknir. Þessar handtökur bætast við þá 23 starfsmenn SÞ sem þegar eru í haldi, sumir allt frá 2021 og 2023, og einn samstarfsfélaga sem lést í haldi fyrr á þessu ári,“ er haft eftir Grundberg. 

„Þessar aðgerðir hindra verulega umleitanir til að flytja neyðargögn og stuðla að friði í Jemen.“

Hann krefst þess að Hútar, sem njóta stuðnings írönsku klerkastjórnarinnar, sleppi öllu starfsfólki SÞ tafarlaust. 

„Ég stend með handteknum samstarfsfélögum mínum og fjölskyldum þeirra. Lausn þeirra mun áfram vera forgangsmál fyrir mig og allar Sameinuðu þjóðirnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×