Sport

Guð­rún Karítas fjarri nýja metinu á sínu fyrsta HM

Sindri Sverrisson skrifar
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir mundar sleggjuna á HM í Tókýó.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir mundar sleggjuna á HM í Tókýó. Getty/Patrick Smith

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir keppti á sínu fyrsta heimsmeistaramóti í nótt þegar hún tók þátt í sleggjukasti á HM í frjálsíþróttum í Tókýó.

Guðrún Karítas mætti á mótið eftir að hafa í síðasta mánuði rofið sjötíu metra múrinn í fyrsta sinn og bætt Íslandsmet Elísabetar Rutar Rúnarsdóttur, með því að kasta 71,38 metra.

Hún náði sér hins vegar ekki eins vel á strik í Tókýó í nótt og endaði í neðsta sæti, eða 35. sæti, með lengsta kast upp á 64,94 metra.

Serían var nokkuð jöfn hjá Guðrúnu því hún kastaði fyrst 63,45 metra, því næst 64,24 metra og átti svo lengsta kast sitt í lokin.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir tilbúin í kast á sínu fyrsta heimsmeistaramóti.Getty/Sam Barnes

Nýja Íslandsmetið hennar hefði dugað vel til að komast í úrslit en þangað komust tólf keppendur og var hin írska Nicola Tuthill síðust inn með kast upp á 70,70 metra.

Hin kanadíska Camryn Rogers kastaði lengst í undankeppninni eða 77,52 metra.

Tveir aðrir Íslendingar eiga eftir að keppa á HM því Sindri Hrafn Guðmundsson keppir í spjótkasti og Erna Sóley Gunnarsdóttir í kúluvarpi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×