Fótbolti

Bellingham batnaði hraðar en búist var við

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Bellingham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun. 
Bellingham verður í leikmannahópi Real Madrid á morgun.  Alberto Gardin/Eurasia Sport Images/Getty Images

Jude Bellingham verður í leikmannahópi Real Madrid í fyrsta sinn síðan á síðasta tímabili, þegar franska liðið Marseille heimsækir Santiago Bernabéu á morgun.

Bellingham gekkst undir aðgerð á öxlinni í sumar eftir að hafa glímt við langvarandi meiðsli, síðan hann fór úr axlarlið í leik gegn Rayo Vallecano árið 2023. Hann hafði leikið með hlífðarbúnað á öxlinni en var orðinn þreyttur á því og lagðist undir hnífinn þegar HM félagsliða lauk.

Batinn hefur gengið vonum framar, því upphaflega átti Bellingham ekki að snúa aftur fyrr en í október. Hann sneri aftur til æfinga í síðustu viku þegar landsleikjahlénu lauk og er einn af 23 leikmönnum í hópnum sem mætir Marseille annað kvöld.

Bellingham hefur verið lykilmaður hjá Madrídingum síðustu tvö tímabil. Hann skoraði 23 mörk í 43 leikjum á sínu fyrsta tímabili og vann tvöfald, deild og Meistaradeild. Á síðasta tímabili skoraði hann 15 mörk í 58 leikjum og missti af báðum titlum.

Tímabilið hefur farið vel af stað hjá Real Madrid, sem er í efsta sæti með fullt hús stiga eftir fjóra leiki í deildinni.

Kylian Mbappé er markahæstur með fjögur mörk og Arda Guler og Vinicius Junior hafa báðir sett tvö mörk í upphafi tímabils.

Sá eini sem virðist ekki vera að njóta sín í Madríd þessa dagana er Trent Alexander-Arnold, sem þurfti að verma varamannabekkinn í rúmar áttatíu mínútur í 2-1 sigrinum gegn Real Sociedad um helgina.

Leikur Real Madrid og Marseille hefst klukkan sjö annað kvöld, þriðjudag, og er einn af sex leikjum Meistaradeildarinnar sem verða í beinni útsendingu á Sýn Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×