Skoðun

Vaxta­stefna Seðla­bankans – á kostnað launa­fólks

Hilmar Harðarson skrifar

Seðlabankinn hefur á undanförnum misserum haldið uppi háum stýrivöxtum, þvert á þær væntingar sem skapaðar voru við gerð síðustu kjarasamninga. Í þeim samningum sýndi launafólk ábyrgð: það tók á sig hóflegar launahækkanir og gaf í raun eftir hluta af verðmætasköpun sinni til að viðhalda stöðugleika í samfélaginu. Þessi ábyrgð hefur hins vegar ekki skilað sér í vaxtalækkunum, nema að litlu marki. Stýrivextir eru nú 7,50%, eftir að hafa hæst farið í 9,25%.

Við venjulegu fólki blasir að vaxtastefna Seðlabanka Íslands er í dag fyrst og fremst í þágu fjármagnseigenda. Það finna orðið allir sem þurfa að standa skil á húsnæðislánum, greiða hærri vexti af yfirdráttarlánum eða takast á við síhækkandi framfærslukostnað.

Á sama tíma hafa bankar og stórfyrirtæki nýtt sér þetta svigrúm til að hagnast. Forstjórar birtast í fjölmiðlum, kvarta undan rekstrarumhverfinu – en birta svo methagnað í ársuppgjörum. Bankarnir og stórfyrirtæki virðast litla eða enga samfélagslega ábyrgð bera; þeir sjá arðsemi og arðgreiðslur til eigenda sem einu mælistikuna á velgengni.

Húsnæðisverð heldur áfram að hækka, langt umfram laun og byggingarkostnað. Húsnæði hefur breyst í fjárfestingavöru fyrir fjármagnseigendur í stað þess að vera öruggt skjól fyrir fjölskyldur. Verðmyndun húsnæðis lýtur ekki lögmálum eftirspurnar sem sést á því að nú þegar hægt hefur á kaupum á húsnæðismarkaði lækkar verð fasteigna ekki. Á sama tíma spilar húsnæðisliðurinn lykilhlutverk í vísitölunni sem Seðlabankinn byggir vaxtastefnu sína á – þannig fær almenningur að súpa seyðið tvöfalt.

Þrátt fyrir sterkt gengi krónunnar lækka innfluttar vörur eins og eldsneyti og matvara ekki. Opinberar gjaldskrár hafa hækkað og ýta undir kostnaðarþrýsting á heimilin. Launafólk, sem sló af kröfum sínum í þágu samfélagsins, sér enga leið út úr vítahringnum. Aðrir aðilar virðast ónæmir fyrir samfélagslegri ábyrgð sinni.

Seðlabankinn þarf að horfa á stærri myndina, samfélagið allt og afleiðingarnar fyrir heimilin. Vaxtastefnan á ekki að þjóna fjármagnseigendum, heldur samfélaginu í heild. Heimilin í landinu geta ekki borið þessa byrði ein – nú þarf raunverulega samfélagslega ábyrgð. Blind þjónusta við fjármagnið hefur okkur engu skilað.

Höfundur er formaður Samiðnar og Félags iðn- og tæknigreina




Skoðun

Sjá meira


×