Erlent

Musk, Thiel og Andrés nefndir í nýjum skjölum Epsteins

Samúel Karl Ólason skrifar
Nýopinberaðar síður úr dagbók Epsteins og önnur skjöl innihalda upplýsignar sem gefa til kynna að Epstein hafi verið í samskiptum við ýmsa auðuga og áhrifamikla menn og að Elon Musk hafi verið þeirra á meðal en Epstein gaf til kynna að Musk ætlaði að heimsækja einkaeyju hans.
Nýopinberaðar síður úr dagbók Epsteins og önnur skjöl innihalda upplýsignar sem gefa til kynna að Epstein hafi verið í samskiptum við ýmsa auðuga og áhrifamikla menn og að Elon Musk hafi verið þeirra á meðal en Epstein gaf til kynna að Musk ætlaði að heimsækja einkaeyju hans. EPA og Getty

Demókratar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings birtu í gær ný skjöl sem nefndin fékk nýverið frá dánarbúi barnaníðingsins látna, Jeffreys Epstein. Ýmis nöfn koma fram í skjölunum, sem eru meðal annars úr dagbók Epsteins, en þeirra á meðal eru Elon Musk, Peter Thiel, Steve Bannon og Andrés Bretaprins.

Skjölin gefa til kynna að Musk hafi ætlað að heimsækja einkaeyju Epsteins í desember 2013. Þar má einnig sjá að Epstein ætlaði að halda morgunverðarfund með Steve Bannon, sem var náinn bandamaður Donalds Trump, forseta, í febrúar 2019 og hádegisverð með Peter Thiel, auðjöfri sem er einnig bandamaður Trumps í nóvember 2017.

Farþegaskrá frá árinu 2000 sýnir einnig að Andrés Bretaprins ferðaðist til eyju Epsteins en gott samband þeirra hefur lengi verið ljóst.

Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Hann var 66 ára gamall og hafði þá verið ákærður fyrir mansal og sakaður um að misnota stúlkur kynferðislega og jafnvel útvega áhrifamiklum vinum sínum eins og Andrési prins stúlkur til að misnota.

Sjá einnig: Persónulegar og átakanlegar lýsingar í ævisögu Giuffre

Musk hefur lengi kallað eftir því að Trump opinberi „Epstein skjölin“ svokölluðu og haldið því fram að nafn Trumps væri í þeim. Hann hefur meðal annars gefið í skyn að fólk geti ekki treyst Trump fyrst hann neiti að opinbera skjölin.

Musk sagði á X í gær að fregnirnar um mögulega ferð hans til einkaeyju Epsteins væru rangar en sagði ekkert meira en það.

Áhugasamir geta séð allar blaðsíðurnar sex hér. Demókratar birtu fjórar þeirra einnig á X og kölluðu í senn eftir því að öll Epstein skjölin yrðu opinberuð.

Skjölin hafa reynst mikill hausverkur

Epstein skjölin hafa verið töluverður hausverkur fyrir Trump og ríkisstjórn hans.

Trump og bandamenn hans hafa á undanförnum árum kynnt undir samsæriskenningar um Epstein og dauða hans en málið hefur reynst Trump erfitt eftir að hann varð aftur forseti. Ríkisstjórn hans hefur staðið í vegi þess að frekari gögn úr málinu yrðu opinberuð en fregnir hafa einnig borist af því að Trump hafi verið tilkynnt að nafn hans komi nokkrum sinnum fyrir í rannsóknargögnunum.

Hann og aðrir sem starfa nú í ríkisstjórn hans höfðu áður heitið því að opinbera öll gögn rannsóknarinnar.

Miklar samsæriskenningar hafa farið á flug tengdar Epstein á undanförnum árum. Þar á meðal hefur því verið haldið fram að yfirvöld í Bandaríkjunum sitji á umfangsmiklum gögnum sem bendli þekkt fólk við misnotkun Epstein. Því hefur einnig verið haldið fram að Epstein hafi verið myrtur í fangelsinu en ekki svipt sig lífi.

Meðal samsæriskenninganna sem tengjast Epstein er að hann hafi átt lista yfir áhrifamikla menn í Bandaríkjunum sem hafi misnotað stúlkur með honum og á eyju hans. Það er listi sem meðlimir áðurnefndrar þingnefndar vilja koma höndum yfir.

Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærasta Epsteins og aðstoðarkona, var árið 2021 dæmd í tuttugu ára fangelsi fyrir með því að hafa útvegað Epstein táningsstúlkur til að brjóta á í gegnum árin. Hún hefur afplánað í alríkisfangelsi í Flórída en var nýverið flutt í lágmarksöryggis fangabúðir í Texas. Það var skömmu eftir að hún var heimsótt af Todd Blanche, aðstoðardómsmálaráðherra.

Eftir það var birt afrit af viðtali Blanche við hana þar sem haft er eftir henni að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna og fyrrverandi vinur Epsteins, hafi aldrei hegðað sér ósæmilega og að „Epstein-skjölin“ svokölluðu væru ekki til.

Ætla ekki að rannsaka meinta fölsun

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar stefndi dánarbúi Espteins fyrr á árinu og fór fram á að öll gögn sem gætu á nokkurn hátt tengst mögulegum lista yfir skjólstæðinga Epsteins eða aðra sem komu að barnaníði eða mansali með honum yrðu afhent nefndinni.

Töluvert magn skjala fékkst afhent og hefur nefndin þegar opinberað hluta þeirra. Þar á meðal er bók sem Epstein fékk þegar hann var fimmtugur. Í henni er umdeilt bréf sem Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, á að hafa skrifað til auðjöfursins, þar sem hann talar um leyndarmál þeirra á milli og sameiginlegt áhugamál.

Trump sjálfur þvertekur fyrir að bréfið sé raunverulegt og segir bréfið falsað.

James R. Comer, Repúblikaninn sem leiðir Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, segist ekki ætla að láta rannsaka hvort undirskriftin sé fölsuð eða ekki. Kash Patel, yfirmaður Alríkislögreglu Bandaríkjanna, var einnig spurður af því að nefndarfundi fyrr í haust hvort hann ætlaði ekki að taka málið til rannsóknar, þar sem forseti Bandaríkjanna hefði sakað dánarbú Epsteins um að falsa skjal og undirskrift hans. Það væri alvarlegt.

Patel virtist ekki hafa áttað sig á því hve alvarlegt það væri ef bréfið væri falsað en sagðist ætla að skoða málið.


Tengdar fréttir

Her­toga­ynjan fær reis­upassann vegna tölvupósts til Ep­stein

Sex bresk góðgerðafélög sem störfuðu með hertogaynjunni af York hafa slitið á tengsl við hana eftir að tölvupóstur var birtur þar sem hún kallaði Jeffrey Epstein „einstakan vin“. Í póstinum virtist hún biðjast velvirðingar á því að hafa gagnrýnt hann opinberlega.

Breskur sendiherra rekinn vegna tengsla við Epstein

Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, rak í dag Peter Mandelson sem sendiherra í Bandaríkjunum vegna tengsla hans við barnaníðinginn Jeffrey Epstein. Mandelson kallaði Epstein sinn „besta vin“ í alræmdu afmæliskorti til hans.

Opinbera bréf Trumps til Epsteins

Afrit af bók sem barnaníðingurinn Jeffrey Epstein fékk að gjöf frá vinum sínum þegar hann varð fimmtugur árið 2003 er komið í hendur þingmanna. Bókin inniheldur meðal annars bréf og teikningu frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Hann hefur sagt að bréfið, sem hann skrifaði undir, sé ekki raunverulegt.

Vinna að lista yfir vini og samstarfsmenn Epstein

Hópur kvenna sem varð fyrir kynferðisofbeldi af hálfu athafnamannsins Jeffrey Epstein vinnur nú að lista yfir vini hans og kunningja, og aðra sem hann umgekkst mikið.

Stefna búi Epsteins og vilja afmælisbókina

Stjórnsýslu- og eftirlitsnefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur stefnt dánarbúi barnaníðingsins Jeffreys Epstein. Formaður nefndarinnar, James Comer, vill þannig koma höndum yfir „öll skjöl eða gögn“ sem gætu á nokkurn hátt tengst mögulegum lista yfir skjólstæðinga Epsteins eða aðra sem komu að barnaníði eða mansali með honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×