Sport

„Þetta er klár­lega staðurinn sem að Kefla­vík á alltaf að vera á“

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Frans Elvarsson eftir leik í dag.
Frans Elvarsson eftir leik í dag. Viktor Freyr/Vísir

Keflavík tryggði sig upp í Bestu deild karla í knattspyrnu með frábærum sigri í úrslitum umspilsins á Laugardalsvelli gegn HK. Keflvíkingar höfðu betur með fjórum mörkum gegn engu og var fyrirliði Keflavíkur að vonum ánægður.

„Mark, gult og það vantaði bara rauða spjaldið“ sagði Frans Elvarsson fyrirliði Keflavíkur sem var jafnframt að leika sinn 500. mótsleik á vegum KSÍ í dag og gat því ekki fagnað því með betri hætti. 

Keflavík verður í Bestu deild karla 2026 eftir frábæran sigur í dag. 

„Það er frábært. Þetta er klárlega staðurinn sem að Keflavík á alltaf að vera á og við hlökkum til næsta tímabils“

Keflavík tapaði þessum leik í fyrra en fara upp núna í ár. Keflavík hefur því verið báðum megin við borðið.

„Það er miklu verra að vera á hinum endanum. Tapið er miklu verra heldur en sigurinn er góður. Þetta er ótrúlega sætt og við erum bara ótrulega glaðir“

Í sumar gekk HK mjög vel með Keflavík og unnu báða leikina gegn þeim í deildinni en Frans sagði þrátt fyrir það hefði frammistaðan alltaf verið góð gegn þeim.

„Já það mætti alveg segja það. Frammistaðan í báðum leikjunum á móti HK í sumar var góð þó svo að úrslitin hefðu verið slæm þá áttum við góða frammistöðu á móti þeim og við gerðum það líka í dag“

Keflavík fóru með afgerandi 3-0 forystu inn í hálfleikinn í dag sem var að einhveju leyti róandi staða fyrir Keflavík.

„Það er bæði gott og vont. Við ákváðum bara að við vorum ekki saddir. Við ætluðum að keyra áfram á þetta“ sagði Frans Elvarsson áður en hann var svo sóttur upp á svið til þess að taka við bikarnum fyrir sigurinn í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×