Erlent

Um þúsund manns teknir af lífi í Íran það sem af er ári

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um það bil helmingur þeirra sem teknir hafa verið af lífi, voru sakaðir um einhvers konar fíkniefnamisferli.
Um það bil helmingur þeirra sem teknir hafa verið af lífi, voru sakaðir um einhvers konar fíkniefnamisferli. Getty

Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna hafa harðlega gagnrýnt mikla fjölgun aftaka í Íran en yfir þúsund manns hafa verið teknir af lífi í landinu það sem af er ári.

Um það bil níu hafa verið teknir af lífi með hengingu á degi hverjum síðustu vikur en um helmingur þeirra sem teknir eru af lífi í Íran hafa verið fundir sekir um einhvers konar fíkniefnamisferli.

Stjórnvöld í Íran hafa ekki brugðist við gagnrýni SÞ en hafa áður sagt að dauðarefsingin sé aðeins framkvæmd þegar viðkomandi hafa framið verulega alvarlega glæpi.

Greint var frá því í gær að Íranir hefðu tekið mann af lífi sem var fundinn sekur um að hafa njósnað fyrir Ísrael. Maðurinn, Bahman Choubi Asl, var sagður gagnasérfræðingur sem hefði unnið að viðkvæmum fjarskiptaverkefnum. Hann hefði reynst útsendari Mossad.

Yfirvöld í Íran hafa ekki upplýst um nein sönnunargögn máli sínu til stuðnings.

Íran hefur nú tekið ellefu manns af lífi á þessu ári sem hafa verið sakaðir um njósir fyrir Ísrael. 

Samkvæmt samtökunum Iran Human Rights í Noregi höfðu helmingur þeirra sem teknir hafa verið af lífi verið sakaðir um fíkniefnatengda glæpi, 43 prósent um morð og þrjú prósent um „vopnaða uppreisn gegn ríkinu“ eða „spillingu á jörðu“. 

Eitt prósent var sakað um njósnir.

Af þessum þúsund sem teknir hafa verið af lífi voru 28 konur og 58 afganskir ríkisborgarar.

BBC greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×