Innlent

Kallar þjóðaröryggis­ráð saman

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Kristrún hefur kallað þjóðaröryggisráð saman.
Kristrún hefur kallað þjóðaröryggisráð saman. Vísir/Anton Brink

Þjóðaröryggisráð kemur saman á föstudag vegna drónaumferðar við flugvelli, bæði hér á Íslandi og í nágrannalöndum okkar. Forsætisráðherra segir grannt fylgst með, en mikilvægt sé að halda ró sinni.

Í gær var greint frá því á Vísi að lögregla hafi að minnsta kosti tvisvar á síðustu tveimur vikum brugðist við tilkynningum um dróna á sveimi við Keflavíkurflugvöll, annars vegar innan haftasvæðisins og hins vegar utan þess. Í báðum tilfellum fann lögreglan ekki meinta dróna. Fyrra atvikið átti sér stað fjórum dögum áður en drónar sáust á sveimi yfir Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn, en við það virkjuðu Danir mikið viðbragð.

Í samtali við fréttastofu segist forsætisráðherra ekki geta tjáð sig um einstaka atburði af þessu tagi.

„En það er auðvitað virkt eftirlit með þessum hlutum hér á landi. Við höfum verið, ríkisstjórnin öll, sérstaklega ég og utanríkisráðherra til að mynda, í virku samtali við greiningardeild Ríkislögreglustjóra og þá aðila sem við á. Við erum auðvitað líka í samtali við kollega okkar erlendis,“ segir Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.

Kallað hefur verið eftir því að þjóðaröryggisráð verði kallað saman vegna atburðanna í Danmörku. Meðal þeirra sem kölluðu eftir því er Guðlaugur Þór Þórðarson þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en hann furðaði sig um helgina á því að það hefði ekki verið gert, viku eftir að drónar flugu yfir Kastrup.

„Við erum að fara að funda um þessi mál núna á föstudaginn kemur í þjóðaröryggisráði. Ég er nýbúin að boða til fundar, sérstaklega um málefni sem snúa að vörnum og öryggismálum á sviði dróna. Þar munum við kalla til okkar alla þá aðila sem þetta mál varðar, og halda utan um, fara yfir stöðuna erlendis og líka eins og þetta liggur fyrir hérna heima.“

Vel sé fylgst með gangi mála.

„En á þessu stigi höldum við ró okkar og viljum bara vera meðvituð um stöðu mála erlendis. Við viljum vera tilbúin hér heima, en við höldum ró okkar eins og er.“


Eftirfarandi sitja í þjóðaröryggisráði: 

  • Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, formaður
  • Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, dómsmálaráðherra
  • Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra
  • Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytis
  • Haukur Guðmundsson, ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytis
  • Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytis
  • Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri
  • Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands
  • Smári Sigurðsson, fulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar
  • Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður
  • Víðir Reynisson, alþingismaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×