Innlent

Hitnar undir feldi Lilju

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar.
Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknar. Vísir/Vilhelm

Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins segist ekki vera búin að taka ákvörðun um það hvort hún bjóði sig fram til formanns flokksins. Hún tók þátt í pallborði í gær í Iðnó um bókun 35 og er nú á leið út á land að hitta flokksmenn í Framsókn.

„Það var troðfullur salur fyrir það fyrsta, sem er ánægjulegt og sýnir að það er fullt af fólki sem lætur þessi fullveldis- og frelsismál sig miklu máli varða,“ segir Lilja í samtali við Vísi. Pallborðið bar yfirskriftina Ögurstund í lífi þjóðar: Endalok þjóðveldis - endalok lýðveldis?

Var boðað til þess af nokkrum félögum, meðal annars Heimssýn og Orkunni okkar. Auk Lilju voru framsögumenn á fundinum Arnar Þór Jónsson, Erla Bjarnadóttir, Haraldur Ólafsson, Hjörtur J. Guðmundsson, Jón Bjarnason og Sigríður Andersen.

Alltaf verið andsnúin

„Ástæðan fyrir því að ég þáði boðið um að taka til máls á þessum fundi er sú að ég tel að Ísland verði að hafa full yfirráð yfir sínum auðlindum til að hagsæld og velferð verði áframhaldandi. Ég tel að EES-samningurinn uppfylli okkar viðskiptalegu kröfur en að hitt sé alltof stórt skref. Við verðum að passa upp á þessi mál til að geta notið þeirra auðlinda sem landið hefur upp á að bjóða, ef við förum inn í ESB erum við að fara inn í ríkjasamband og áhrif okkar til að ráða okkar málum sjálf munu dvína.“

Lilja segir sína skoðun á málinu ekki hafa breyst frá því hún sat sem ráðherra í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur, sem studdi málið. Það hafi ekki komið til afgreiðslu Alþingis á sínum tíma.

„Ég hef verið mótfallin því að bókun 35 í núverandi mynd, eins og málið hefur verið lagt upp, nái fram að ganga. Bókun 35 felur í sér að íslensk stjórnvöld viðurkenni forgang EES-réttar fram yfir landslög. Stjórnarskráin hefur ekki gert ráð fyrir svona íþyngjandi yfirþjóðlegri löggjöf. Við verðum að ráða okkar málum sjálf,“ segir Lilja. 

„Það er ekkert leyndarmál að ég hef alltaf verið skeptísk á þetta mál og að ég tel að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Ég er hins vegar hlynnt samningnum um evrópska efnahagssvæðið á meðan það þjónar okkar hagsmunum og hef þá trú að því meira sem þjóðríki ráði sínum málum og framtíð sjálf því líklegra sé að þau nái árangri og samkeppnishæfni.“

Fengið áskoranir um formannsframboð

Lilja leiddi lista Framsóknar í Reykjavíkurkjördæmi suður í síðustu alþingiskosningum en flokkurinn náði engum manni þar inn á þing. Flokkurinn fékk 7,8 prósenta fylgi í kosningunum og hefur fylgi flokksins í nýjustu skoðanakönnunum mátt muna fífil sinn fegurri.

Mældist hann síðast með 5,8 prósenta fylgi í þjóðarpúlsi Gallup, þar áður 4,5 prósent og því út af þingi. Stjórnarandstaðan á þingi hefur auk þess mælst fremur óvinsæl ef marka má nýjustu skoðanakönnun Maskínu. Þegar Vísir náði tali af Lilju var hún í óðaönn við að undirbúa sig undir ferðalag út á land, að hitta flokksmenn á Egilsstöðum, í Vík og á Selfossi, enda varaformaður flokksins.

Það fer mikið fyrir þér þessa dagana, þú hlýtur að ætla að bjóða þig fram til formanns Framsóknar?

„Ég hef fengið áskoranir, en ég hef ekki tekið ákvörðun um það. Ég er einlæg með það,“ segir Lilja. Miðstjórnarfundur flokksins fer fram þann 18. október næstkomandi og verður þá ákveðið hvenær næsta flokksþing fer fram, þar sem kosið verður til embættis formanns. Lilja segist sjá mikil sóknartækifæri í kortunum fyrir flokkinn.

„Ég held að sú efnahagsstefna sem ríkisstjórnin er að framfylgja eigi eftir að reyna miklu meira á hana. Þjóðin var ekki sammála stjórnarandstöðunni í málþófinu, það hefur komið í ljós. Það eru klárlega sóknarfæri vegna þess að það eru miklir veikleikar í efnahagsstjórninni, verðbólgan hefur hækkað, vextir eru ekki að lækka og það er algjörlega óásættanlegt fyrir íslensk heimili.“


Tengdar fréttir

Óánægja með stjórnarandstöðu í hæstu hæðum

Ánægja með störf ríkisstjórnarinnar eykst á milli fjórðunga og hefur ekki verið meiri í á fimmta ár. Á sama tíma eykst óánægjan nokkuð og þar með fækkar í hópi þeirra sem höfðu ekki skoðun á ríkisstjórninni. Óánægja með störf stjórnarandstöðunnar er í hæstu hæðum.

Bókun 35 fór hnökralaust í gegnum fyrstu umræðu en gæti reynt á í næstu

Bókun 35 verður aftur tekin fyrir í utanríkismálanefnd Alþingis eftir að fyrstu umræðu um frumvarp utanríkisráðherra lauk í kvöld. Líklega fer það óbreytt í aðra umræðu en spurning er hvort ríkisstjórnin muni aftur finna sig knúna til að beita „kjarnorkuákvæðinu“ til að þvinga það í gegnum aðra umræðu, sem stjórnarliðar hafa ekki útilokað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×