Handbolti

Vonast til að landsliðstreyjurnar fari í sölu á næstu vikum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ný landsliðstreyja er væntanleg og framkvæmdastjóri HSÍ vonast til að hún fari sem fyrst í sölu.
Ný landsliðstreyja er væntanleg og framkvæmdastjóri HSÍ vonast til að hún fari sem fyrst í sölu. vísir/vilhelm

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, bindur vonir við að nýjar treyjur íslensku landsliðanna í handbolta fari í sölu á næstum vikum.

HSÍ gerði nýjan búningasamning við Adidas á síðasta ári og íslensku A-landsliðin léku í nýjum treyjum frá þýska íþróttavöruframleiðandanum á síðustu stórmótum. Áður léku Íslendingar í treyjum frá Kempa í mörg ár.

Landsliðstreyjan frá Adidas fór ekki í almenna sölu, eins og fyrir jólin og HM karla í janúar, og ekki er hægt að kaupa hana núna.

Að sögn Róberts er ný landsliðstreyja væntanleg og hann vonast til hún fari fljótlega í sölu. 

„Ég var að fá svar frá Örvari [Rúdolfssyni] hjá Adidas að treyjurnar séu væntanlegar fljótlega til Svíþjóðar og þaðan til okkar. Við vonum að þær fari í sölu seint í október eða byrjun nóvember,“ sagði Róbert í samtali við Vísi.

Hann segist vona að treyjurnar verði komnar í sölu fyrir HM kvenna sem hefst í næsta mánuði og þar af leiðandi fyrir jólin.

En af hverju hefur salan á treyjum tafist svona mikið?

„Við ákváðum að skipta um treyju. Það kemur ný treyja fyrir komandi stórmót. Þetta er stærra fyrirtæki og meiri framleiðslutími á vörunum en ella,“ sagði Róbert og bætti við að um talsvert stærra batterí væri um að ræða en hjá Kempa.

„Já, miklu stærra og allt öðruvísi að eiga við,“ sagði Róbert. Hann býst við að íslensku liðin spili í nýju landsliðstreyjunni í næsta mánuði en þá eiga bæði karla- og kvennalandsliðin leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×