Skoðun

Eflum geð­heilsu alla daga

Guðbjörg Sveinsdóttir skrifar

Í dag er 10. október, alþjóðlegur geðheilbrigðisdagur. Mér verður hugsað um 30 ár tilbaka, þegar við héldum fyrst upp á þennan dag. Þegar notendur geðheilbrigðisþjónustunnar fóru að gera sig gildandi, gengu götur með kröfuspjöld, komu fram í fjölmiðlum, héldu málverkasýningar, tónleika og málþing ár eftir ár. Þau kröfðust sýnileika og mannréttinda á pari við aðra samfélagsþegna og það má alveg sjá víða hvernig notendur hafa virkilega breytt og ýtt við stöðnuðu kerfi til betri vegar. Það er í dag almennt viðurkennt að bata- og mannréttindamiðuð þjónusta sé stefnan þar sem virðing er borin fyrir vali og sjálfræði einstaklinga og stuðningur við fjölskyldur og tengslanet er sjálfsagður.

Allt þetta er í stefnum og plöggum opinberra aðila sem eiga að sinna veikum einstaklingum og aðstandendum þeirra. En lýsingar aðstandanda og fleiri eru í hrópandi ósamræmi við þau plögg og það verður oftar en ekki uppi fótur og fit þegar þjónustan er gagnrýnd og dregin í efa eins og sannarlega hefur verið gert undanfarið í umfjöllun um fanga sem glíma við geðrænar áskoranir, að ég tali ekki um foreldra ungra einstaklinga með fjölþættan vanda, svo sem vímuefnaneyslu, hegðunarvanda og/eða taugaþroskaraskanir ýmis konar.

Ég minnist hve vongóð við vorum um aldamótin, þegar umræðan fór að snúast um geðrækt, forvarnir og verkefni á borð við Zippy’s Friends var kynnt til sögunnar, geðræktarátak sem átti að innleiða í leik- og grunnskólum. Hvað varð um það? Auðvitað hefur þó margt breyst til batnaðar, umræðan opnari, meiri samfélagsgeðþjónusta til staðar og viðurkenning á jafningjastuðningi víða.

En einhvern veginn er eins og við sem samfélag séum ekki að halda utan um þá sem mest þurfa á aðstoð að halda, það einkennist um of af mikilli einstaklingshyggju, samkeppni, samanburði, neysluhyggju og mismunun, allt eru þetta atriði sem ýta undir streitu og stundum uppgjöf og eru ekki góð fyrir geðheilsuna. Þegar við bætist niðurskurður og ýmis frjálshyggjueinkenni hins opinbera er ekki von á góðu eins og fjölmargir hafa haft orð á og tölfræðin sýnir varðandi innlagnir og að ég tali ekki um fjölda þeirra sem falla fyrir eigin hendi.

Það ætti ekki árið 2025 að þurfa sjónvarpsþætti sem sýna hvernig fárveikir einstaklingar eru settir í einangrun í fangelsi í stað viðeigandi meðferðarúrræðis, ekki viðtöl við úrvinda foreldra sem hafa jafnvel misst börnin sín eða ætla með þau til annarrra heimsálfa í meðferð, ekki símtöl í örvæntingu vegna stuðningsleysis og baráttu við heilbrigðisstarfsfólk.

Við þurfum sem samfélag róttæka breytingu, förum að huga að forvörnum, nýjum leiðum sem hafa verið teknar upp annars staðar og eigum samráð og heiðarlegt samtal við notendur, jafningja og aðstandendur um hvað virkar og hvað ekki. Að bera við fjárskorti er ekki í boði, tökum þá eitthvað af milljörðum sem fara í varnarmál og notum til hagsbóta fyrir þegna landsins.

Höfundur er geðhjúkrunarfræðingur og sjálfboðaliði hjá Afstöðu.




Skoðun

Sjá meira


×