Fótbolti

Nagelsmann ætlaði ekki að sýna Norður-Írum van­virðingu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Julian Nagelsmann og þýsku strákarnir hans sækja Norður-Írland heim í undankeppni HM 2026 í kvöld.
Julian Nagelsmann og þýsku strákarnir hans sækja Norður-Írland heim í undankeppni HM 2026 í kvöld. epa/CHRISTOPHER NEUNDORF

Julian Nagelsmann, þjálfari þýska karlalandsliðsins í fótbolta, segist ekki hafa ætlað sér að gera lítið úr norður-írska landsliðinu eftir leik liðanna í undankeppni HM 2026 í síðasta mánuði.

Þýskaland vann leik liðanna í Köln í september, 3-1. Eftir leikinn sagði Nagelsmann að fótboltinn sem Norður-Írland spilaði væri ekkert augnayndi og liðið beitti mikið af löngum sendingum.

Ummæli Nagelsmanns mæltust misvel fyrir hjá Norður-Írum og einhverjum þótti hann sýna þeim lítilsvirðingu með þeim. Nagelsmann segir að það hafi ekki verið ætlun sín.

„Ég sagði að þetta væri kannski ekki fallegt áhorfs en það mikilvægasta, lykilatriðið, er að þeir gera þetta mjög vel. Það er hugsun á bakvið löngu boltana,“ sagði Nagelsmann en Norður-Írland og Þýskaland mætast í Belfast í kvöld.

„Það er sérstök stemmning í liðinu og ég sagði einnig að það væri mjög erfitt að vinna það. Þeir fá ekki mörg mörk á sig og skapa mörg færi, líka eftir föst leikatriði, með þessum hætti. Ef einhver móðgaðist biðst ég afsökunar. Ég ætlaði ekki að sýna vanvirðingu. Ég ber virðingu fyrir liðinu og hvernig það spilar.“

Þýskaland og Norður-Írland eru bæði með sex stig í A-riðli undankeppninnar þegar hvort lið á þrjá leiki eftir. Þjóðverjar eru í efsta sæti riðilsins sökum betri markatölu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×