Körfubolti

Grát­legt tap hjá Elvari og fé­lögum eftir fram­lengingu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elvar Már Friðriksson og félagar þurftu að sætta sig við grátlegt tap í kvöld.
Elvar Már Friðriksson og félagar þurftu að sætta sig við grátlegt tap í kvöld. vísir/Hulda Margrét

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Elvar Már Friðriksson og félagar í pólska liðinu Anwil Wloclawek misstu frá sér sigurinn í Evrópubikarnum í kvöld.

Anwil Wloclawek varð á endanum að sætta sig við eins stiga tap á útivelli á móti þýska liðinu Basketball Lowen Braunschweig, 98-97, en framlengja þurfti leikinn. Þetta var fyrsti leikur liðanna í keppninni.

Anwil var tíu stigum yfir í þriðja leikhlutanum en allt fór í baklás í upphafi lokaleikhlutans sem þýska liðið vann 18-7. Pólska liðið kom sér aftur inn í leikinn og lokamínúturnar urðu síðan æsispennandi.

Elvar klikkaði á þriggja stiga skoti þegar níu sekúndur voru eftir en hann hefði þá getað komið Anwil yfir. AJ Slaughter jafnaði metin fyrir Anwil með þriggja stiga skoti, 82-82, þegar þrjár sekúndur voru eftir. Það varð því að framlengja leikinn.

Anwil byrjaði framlenginguna betur en heimamenn voru sterkari og tryggðu sér sigurinn.

Elvar Már var í byrjunarliðinu og skilaði átta stigum og sjö stoðsendingum auk þess að taka fimm fráköst og stela þremur boltum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×