Skoðun

Breytum fánalögunum og notum fánann meira

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Íslenski þjóðfáninn er eitt helsta sameiningartákn okkar Íslendinga. Fáninn er fallegt tákn frelsis, fullveldis og sjálfstæðis okkar þjóðar. Fáninn ber sögu okkar, menningu og gildum fagurt vitni og sameinar þjóðina.

Margir hafa verið á þeirri skoðun að við ættum að nota fánann mun meira en gert er. Ekki að hann blakti aðeins á hátíðisdögum og á opinberum fánadögum heldur sé notaður sem merki sem víðast og mest. Að mínu mati var það til dæmis síður en svo til bóta þegar þjóðfáninn var tekinn úr endurnýjuðu og breyttu merki Alþingis.

Núverandi fánalög eru nokkuð hamlandi. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir veigra sér við að flagga vegna þeirra takmarkana sem lögin setja um notkun fánans. Umræður um fánalögin koma upp annað slagið hér á landi og hvort gera skuli breytingar á þeim.

Í kjölfar þess að þingmenn fengu opinbera hvatningu í gær, frá Steinþóri Jónssyni einstaklingi í ferðaþjónustu tók ég málið upp á Alþingi. Þar tók ég undir það að gera þurfi breytingar á þessum lögum, einfalda þau eða ryðja úr vegi hindrunum við notkun fánans. Tillaga Steinþórs er um að því verði komið inn í lögin að heimilt verði að flagga allan sólarhringinn á björtum sumardögum, eða frá 15. maí – 15. september. Það er góð tillaga, einföld breyting í framkvæmd og gæti verið eitt af skrefunum í átt að aukinni notkun fánans okkar.

Við eigum að gera íslenska fánanum hærra undir höfði. Sýna honum og íslenskri menningararfleifð þá virðingu og sóma sem honum ber með meiri og almennari notkun. Við getum tekið frændur okkar á Norðurlöndunum til fyrirmyndar, en þjóðfánar þeirra eru mun meira áberandi hjá þeim en hjá okkur. Við sjálfstæðismenn styðjum það að fánalögin verði tekin til endurskoðunar í því skyni að einfalda notkun á okkar fallega sameiningartákni.

Höfundur er þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Skoðun

Sjá meira


×