Innlent

Öflugasti skjálfti í Mýr­dals­jökli frá árinu 2023

Eiður Þór Árnason skrifar
Eldstöðin Katla er staðsett undir Mýrdalsjökli.
Eldstöðin Katla er staðsett undir Mýrdalsjökli. vísir/vilhelm

Nokkuð öflug skjálftahrina hófst í Mýrdalsjökli um klukkan 10:30 í dag og mældust nokkrir skjálftar yfir þremur að stærð. Sá stærsti, sem var 4,4 að stærð, var öflugasti skjálfti á svæðinu frá því í maí 2023 þegar skjálfti að stærð 4,8 mældist þar.

Veðurstofa Íslands greinir frá þessu og segir svipaðar hrinur hafa fundist á sama stað í Mýrdalsjökli í maí og júní 2023. Báðar þær hrinur hafi staðið yfir í nokkrar klukkustundir og fjarað að mestu leyti út innan sólarhrings.

„Nú virðist hrinan þróast á svipaðan hátt og hefur dregið úr virkni síðustu klukkustundirnar þótt áfram mælist stöku smáskjálftar,“ segir í tilkynningu frá Veðurstofunni. Engin merki sjást um breytingar á leiðni í ám frá Mýrdalsjökli sem gætu bent til yfirvofandi jökulhlaups.

Kortið sýnir staðsetningu yfirfarinna jarðskjálfta í Mýrdalsjökli í dag. Appelsínugulir þríhyrningar tákna jarðskjálftamæla Veðurstofunnar. Efra línuritið hægra megin sýnir stærðir skjálftanna en það neðra fjölda skjálfta á klukkustund.Veðurstofa Íslands

Engar tilkynningar hafa borist um að stærstu skjálftarnir hafi fundist í byggð, að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. 

Hún hyggst áfram fylgjast náið með Mýrdalsjökli og bendir á að stærri jarðskjálftar geti aukið líkur á berg- og íshruni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×