Erlent

Kallar Biden ljótan að utan sem innan og vill hann í fangelsi

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá því þegar Joe Biden yfirgaf Hvíta húsið í janúar og Trump tók aftur við embætti.
Frá því þegar Joe Biden yfirgaf Hvíta húsið í janúar og Trump tók aftur við embætti. EPA/CHRIS KLEPONIS

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, kallaði í dag eftir því að Joe Biden, forveri hans, yrði settur í fangelsi. Í færslu á sínum eigin samfélagsmiðli sagði Trump að Biden væri glæpamaður, „meiriháttar lúsablesi (Lowlife)“, algerlega misheppnaður og ljótur að utan sem að innan.

Forsetinn nefndi Biden ekki beint í færslunni en henni fylgdi grein um að rannsókn yfirvalda í Bandaríkjunum, í forsetatíð Bidens, á tilraunum Trumps til að snúa úrslitum forsetakosninganna 2020 hafi verið reist á veikum grunni. Greininni fylgir mynd af Trump og Biden.

„Ég rústaði honum, og elska að fylgjast með honum engjast um.“

Þetta skrifaði Trump einnig í færsluna á Truth Social.

Rannsóknin endaði á höndum Jacks Smith, sem skipaður var í embætti sérstaks rannsakanda. Hann ákærði Trump í fjórum liðum fyrir að reyna að snúa úrslitum forsetakosninganna en málið var fellt niður eftir að Trump varð aftur forseti.

Smith hefur haldið því fram að málið hefði endað með sakfellingu Trumps.

Færsla Trumps á Truth Social.

Joe Biden verður 83 ára gamall í næsta mánuði. Hann greindist nýverið með krabbamein í blöðruhálsi og hóf geislameðferð fyrr í þessum mánuði.

Trump hefur frá því hann varð aftur forseti ítrekað verið mjög harðorður í garð Bidens og kennt honum um flest allt sem farið hefur úrskeiðis í Bandaríkjunum og jafnvel í heiminum.

Fyrr í dag skrifaði Trump svo að ummæli Chuck Schumer, leiðtoga Demókrata í öldungadeildinni, um að Asíuferð Trumps hefði í raun litlu skilað væri „næstum því“ landráð.

Trump segir að gagnrýni öldungadeildarþingmanns í hans garð sé „næstum því“ landráð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×