Körfubolti

„Verður kannski mest krefjandi fyrir börnin mín“

Aron Guðmundsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta er spenntur fyrir Suðurnesjaslag kvöldsins gegn Grindavík í Bónus deild karla í körfubolta
Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari karlaliðs Keflavíkur í körfubolta er spenntur fyrir Suðurnesjaslag kvöldsins gegn Grindavík í Bónus deild karla í körfubolta Vísir/Anton Brink

Daníel Guðni Guð­munds­son, þjálfari karla­liðs Kefla­víkur í körfu­bolta segir að varnar­leikur síns liðs verði að vera full­kominn í kvöld til þess að liðið geti átt mögu­leika í Suður­nesja­slag gegn liði Grinda­víkur á úti­velli. Leikurinn hefur sér­staka þýðingu fyrir Daníel og fjöl­skyldu hans.

Daníel Guðni er virki­lega spenntur að sjá sína menn etja kappi við Grind­víkinga, sem hafa ekki tapað leik í deildinni til þessa.

„Grind­víkingar eru búnir að vera mjög góðir í vetur og eru alltaf erfiðir heim að sækja. Þetta verður krefjandi verk­efni,“ segir Daníel í sam­tali við íþrótta­deild Vísis en að margra mati er lið Grinda­víkur besta varnar­lið deildarinnar og héldu þeir Valsmönnum meðal annars í 55 stigum á dögunum.

„Þeir eru virki­lega sterkir og allir fram­herjarnir þeirra Jordan, Daniel og Ólafur eru virki­lega sterkir og geta dekkað bak­verði sömu­leiðis. Ég hef verið að horfa á undan­farna leiki hjá þeim og þeir hafa gert vel í því. Svo eru þeir lík­legast með besta varnar­mann Deildarinnar í DeAndre Kane. Við þurfum að finna ein­hverjar lausnir í kvöld og erum með hæfi­leikaríka sóknar­menn.“

Keflvíkingar hafa líka verið á flottu skriði fyrstu um­ferðir deildar­keppninnar. Daníel Guðni þekki þessa Suður­nesja­slagi vel. Er sjálfur upp­alinn Njarðvíkingur og hefur á sínum tíma bæði starfað fyrir Njarðvík, Kefla­vík og jú Grinda­vík. Leikur kvöldsins verður því einkar sér­stakur fyrir Daníel.

„Þessir slagir gegn Suður­ne­sjaliðunum eru skemmti­legastir. Ég þekki það mjög vel og veit það verður mikil stemning í Grinda­vík í kvöld. Þetta eru leikirnir sem maður bíður eftir þegar að maður fær leikja­skipu­lagið í hendurnar.

Ég er virki­lega spenntur og þakk­látur fyrir minn tíma í Grinda­vík. Ég bjó þar fyrir rýmingu með fjöl­skyldunni minni og þetta verður kannski mest krefjandi fyrir börnin mín sem mæta væntan­lega í bláu, grænu og gulu í kvöld í stúkuna í Grinda­vík. Þetta er bara skemmti­legt en sömu­leiðis sér­stakt verk­efni.“

Hvað þurfa Keflvíkingar að sýna fram á í Grinda­vík í kvöld til þess að fara með tvö stig heim í Bítla­bæinn?

„Ég tel að varnar­leikurinn okkar verði að vera alveg hundrað pró­sent í kvöld í fjörutíu mínútur. Við erum búnir að eiga góða kafla í vetur varnar­lega en ekki náð að tengja alla leik­hluta saman. Í síðasta leik áttum við tvo góða leik­hluta varnar­leik­hluta og tvo arfaslaka. Þetta þarf allt að vera á hreinu í kvöld. Að við tengjum vel varnar­lega til að ná í þessi tvö stig. Við erum ekki að fara vinna þennan leik á ein­hverjum sóknar hæfi­leikum því varnar­leikurinn verður að vera í fyrir­rúmi í kvöld.“

Suður­nesja­slagur Grinda­víkur og Kefla­víkur í HS Orku höllinni í Grinda­vík hefst klukkan hálf átta í kvöld og verður sýndur í beinni út­sendingu á Sýn Sport Ís­land rásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×