Skoðun

Húsnæði­s­pakki fyrir unga fólkið og fram­tíðina

Anna María Jónsdóttir skrifar

Fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar hefur nú litið dagsins ljós við jákvæðar undirtektir og það ekki að ástæðulausu. Í þessum áfanga er sjónum einkum beint að fyrstu kaupendum og ungu fólki. Fram að þessu hefur þröskuldurinn sem þessu fólki hefur verið gert að klífa til að komast inn á húsnæðismarkað verið nær ókleifur öllum, nema þeim sem hafa getað reitt sig á fjárhagslegan stuðning úr baklandi sínu. Farið verður í endurbætur á eldri kerfum auk þess sem ráðist verður í markvissar aðgerðir og uppbyggingu húsnæðis um land allt.

Í fyrsta lagi á að tryggja að hlutdeildarlánin svokölluðu virki almennilega. Það verður gert með því að rýmka skilyrði fyrir lánveitingu, tryggja að þeim verði úthlutað mánaðalega. Hækka á fjárhæðina sem ríkið setur í lánveitingarnar um 1,5 milljarð króna á ári.

Í öðru lagi með því að stórauka framboð á íbúðum, þar sem sérstök áhersla verður á uppbyggingu íbúða sem henta ungu fólki og fyrstu kaupendum. Stærsta skrefið sem stigið verður í því sambandi er uppbygging 4.000 íbúða í Úlfarsárdal.

Í þriðja lagi á að hækka framlag ríkisins til uppbyggingu íbúða fyrir námsmenn og öryrkja auk félagslegra íbúða á vegum sveitarfélaga.

Í fjórða lagi er ríkisstjórnin að gera sitt til að tryggja áfram framboð á verðtryggðum lánum sem henta best fyrstu kaupendum með því að bregðast hratt og fumlaust við vaxtadómi Hæstaréttar með nýju vaxtaviðmiði.

Síðast en ekki síst verður tryggt að skattfrjáls nýting á séreignarsparnaði verði réttur til tíu ára sem allir eiga, ekki tilviljanakennd aðgerð sem hingað til hefur verið framlengd ár frá ári og hefur samkvæmt aðallega nýst tekjuhæstu hópum samfélagsins.

Vonast var til að húsnæðispakkinn, sá stærsti í áratugi, myndi leiða til þess að Seðlabankinn myndi slaka á lánþegaskilyrðum. Tveimur dögum síðar var hann búinn að gera það, ungu fólki og fyrstu kaupendum til heilla.

Svona vinnur ríkisstjórn sem lætur verkin tala. Ríkisstjórn sem þorir og framkvæmir. Svona vinnur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur.

Höfundur er kennari og sitjandi varaþingmaður Samfylkingarinnar




Skoðun

Sjá meira


×