Innlent

Bilunin hjá Cloudflare ó­venju­lega löng

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Magni Sigurðsson forstöðumaður CERT-IS segir bilunina óvenjulanga.
Magni Sigurðsson forstöðumaður CERT-IS segir bilunina óvenjulanga. Vísir/Vilhelm

Fjölmargar vefsíður lágu niður klukkutímum saman í dag vegna bilunar hjá einni vefþjónustu. Forstöðumaður netöryggissveitar CERT-IS segir mikilvægt að stofnanir séu með góðar varaleiðir, sem hægt sé að grípa í þegar bilun sem þessi kemur upp, svo nauðsynleg þjónusta liggi ekki niðri.

Fjöldi vefsíðna, bæði innlendar og erlendar, lágu niðri í nokkuð langan tíma í dag vegna bilunar hjá netfyrirtækinu Cloudflare. Fyrirtækið hýsir meðal annars vefi Alþingis, Stjórnarráðsins og Ríkisútvarpsins sem lágu niðri auk stórra erlendra síða á borð við samfélagsmiðilinn X og gervigreindina ChatGPT.

„Þetta er mjög óvenjulegt atvik og mjög langt atvik,“ segir Magni Sigurðsson forstöðumaður netöryggissveitar CERT-IS.

Fyrirtækið þjónustar tæplega tuttug prósent allra vefsíðna á Internetinu.

„Þetta hlýtur að vera bagalegt þegar svona þjónusta bilar? Jú vissulega og svo sem ekki vön þvi að svona útfölll standi jafn lengi. Þetta er svo sem mjög traust og góð þjónusta að því leyti að þeir eru mjög framarlega í t.d. netvörnum og með mjög öflugar álagsárásarvarnir, sem við og Alþingi og fleiri vefir á Íslandi hafa lent í.“

Keðjuverkandi áhrif

Bilunin fór að gera vart við sig um klukkan hálf tólf en það var ekki fyrr en á þriðja tímanum sem síðurnar komust aftur í lag. Ekki liggur fyrir hvað nákvæmlega kom fyrir en tæknistjóri Cloudflare tilkynnti að orsökin hafi verið minniháttar breyting á kerfi fyrirtækisins.

„Sem að olli síðan þessum keðjuverkandi áhrifum sem að vefsíður fóru niður og aðrar þjónustur,“ segir Magni.

Magni segir vel hægt að grípa til ráðstafana til þess að þjónusta vefsíðna liggi ekki niðri við svona bilun.

„Ef að þjónustan sem þú ert að veita og vefurinn er mjög mikilvægur og mikilvægt að hafa 100% uppitíma þá ættu aðilar að skoða að vera með varaleiðir og viðbragðsáætlanir hvað eigi að gera þegar slíkt kemur upp og önnur þjónustan fellur út, hvernig þú virkjar hina.“


Tengdar fréttir

Fjöldi vefsíðna lá niðri vegna bilunar

Fjöldi íslenskra og erlendra vefsíðna lágu niðri vegna bilunar hjá netfyrirtækinu Cloudflare. Vefir Alþingis, Stjórnarráðsins og Ríkisútvarpsins voru meðal þeirra sem urðu fyrir áhrifum vegna bilunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×