Skoðun

Er þetta planið?

Guðmundur Ari Sigurjónsson skrifar

Nú er senn ár liðið frá Alþingiskosningunum. Eftir kosningar tók við ný, björt og brosandi ríkisstjórn sem hefur unnið þétt með þjóðinni. Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað í þágu almennings, ráðist í tiltekt í stjórnkerfinu og hafið uppbyggingu á öryggi og innviðum landsmanna.

Megináhersla hefur verið á að ná stjórn á rekstri ríkissjóðs og stöðva áratugalangan hallarekstur. Hallarekstur síðustu ára hefur ýtt undir skuldsetningu ríkissjóðs og kynnt undir verðbólgu sem fór yfir 10% í valdatíð síðustu ríkisstjórnar. Sú efnahagsstefna neyddi Seðlabankann til að hækka stýrivexti upp fyrir 9% sem heimili og atvinnulíf í landinu hafa fundið allt of mikið fyrir síðustu árin.

Lækkun skulda, vaxta og verðbólgu

Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er mörkuð ný stefna. Búið er að innleiða stöðugleikareglu sem heldur aftur af útgjöldum og stefnt er að hallalausum rekstri ríkissjóðs árið 2027. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram hagræðing upp á 100 milljarða ásamt því að skuldir ríkissjóðs sem hlutfall af vergri landsframleiðslu hafa þegar lækkað með sölu á Íslandsbanka og uppgjöri ÍL sjóðs.

Ríkisstjórnin lagði fram fyrsta húsnæðispakka sinn í haust þar sem áhersla er að fjölga lóðum, einfalda byggingareglugerð, tryggja aukið fjármagn í hlutdeildarlánin og festa nýtingu séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán til 10 ára. Fjármálastefna og fyrsti húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar eru þegar farin að hafa áhrif. Seðlabankinn hefur rýmkað lánþegaskilyrði sín, verðbólga hefur lækkað og vextir hafa lækkað um 1,25 prósentustig frá síðustu kosningum.

Þessu finnur fólk fyrir í heimilisbókhaldinu og samkvæmt greiningaraðilum mun verðbólga og vextir halda áfram að lækka á næsta ári.

Efling innviða og öryggis á Íslandi

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar snúa ekki bara að hagræðingu og lækkun skulda ríkissjóðs. Forgangsatriði er að skapa svigrúm í rekstrinum til að efla öryggi, innviði og grunnþjónustu við almenning á Íslandi.

Það hefur meðal annars verið gert með því að leiðrétta veiðigjöld með sanngjörnum hætti, laga kerfi sem voru hætt að virka fyrir fólkið í landinu, loka skattaglufum sem nýtast mest efnamestu hópum samfélagsins og endurreisa tekjustofna til að standa undir kostnaðinum sem fylgir því að reka öflugt velferðarkerfi.

Við erum þegar byrjuð að efla löggæslu, vegakerfið, skóla, spítala og meðferðarkjarna. Á næstu vikum verður lögð fram fjármögnuð samgönguáætlun þar sem Ísland byrjar aftur að bora göng og laga vegi.

Svona vinnur ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins. Styrk stjórn á efnahagsmálum þrátt fyrir ytri áskoranir og sterk velferð út um allt land.

Höfundur er þingflokksformaður Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Jóla­kötturinn, ert það þú?

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Sjá meira


×