Fótbolti

Talar í hringi um Heimi og gefur honum ekkert hrós

Sindri Sverrisson skrifar
Heimir Hallgrímsson stýrði Írum til sigurs gegn Portúgal á heimavelli og Ungverjalandi á útivelli, og því verða þeir með í HM-umspilinu í lok mars.
Heimir Hallgrímsson stýrði Írum til sigurs gegn Portúgal á heimavelli og Ungverjalandi á útivelli, og því verða þeir með í HM-umspilinu í lok mars. Getty/Stephen McCarthy

Viku eftir að hafa skrifað pistil um að hann skuldaði Heimi Hallgrímssyni afsökunarbeiðni hefur kjaftagleiði Írinn Eamon Dunphy nú sagt að Heimir eigi ekkert hrós skilið fyrir að Írland hafi komist í HM-umspilið í fótbolta.

Hinn áttræði Dunphy, fyrrverandi landsliðsmaður Írlands, sparaði ekki hrósið í garð Heimis eftir 2-0 sigurinn gegn Portúgal í Dublin í síðustu viku. Hann hefði fært Írum stolt á nýjan leik, valið réttu leikmennina og framkallað ógleymanlegt kvöld með sigri á einu besta liði heims.

Dunphy hafði fram að því verið afar gagnrýninn á Heimi og kallað eftir því í haust að hann yrði rekinn en bað hann afsökunar á því.

„Heimir – hneigðu þig. Þú átt það skilið. Og já, Heimir – ég ét ofan í mig orð mín. Og ég er glaður að gera það. Allt sem ég hef nokkurn tíma viljað er að írskt lið spili með stolti. Og það gerðu þeir svo sannarlega. Við endurheimtum okkar leik á fimmtudagskvöld,“ skrifaði Dunphy eftir Portúgalsleikinn.

Margur hefði kannski haldið að 3-2 útisigurinn magnaði gegn Ungverjum í Búdapest þremur dögum síðar, þar sem Írland tryggði sig inn í HM-umspilið, myndi gera Dunphy enn ánægðari með Heimi. Írar hafa líka keppst við að hrósa Heimi enda óvanir því að geta komist á stórmót, og sannkölluð þjóðhátíð ríkti eftir sigurinn á Ungverjum á sunnudaginn.

En þegar enginn virtist hafa neitt neikvætt að segja um Heimi tók Dunphy til máls í sjónvarpsþættinum vinsæla The Tonight Show á Virgin Media, í fyrrakvöld, þegar hann var spurður hvort að Heimir ætti ekki skilið hrós fyrir að koma Írlandi í HM-umspilið:

„Nei, ekki að mínu mati,“ sagði Dunphy.

„Hann á auðvitað einhvern þátt í þessu. En hann hefur haft Troy Parrott [innsk.: sem skoraði öll fimm mörkin gegn Portúgal og Ungverjalandi] oft utan hóps og ekki látið hann spila [innsk.: Parrott var frá keppni í tæpa 40 daga í haust vegna meiðsla]. Og ef okkar aðalmaður Evan Ferguson hefði verið ómeiddur þá hefði Parrott mögulega ekkert spilað í þessum leikjum,“ sagði Dunphy í þættinum, samkvæmt frétt Balls.ie.

„Seamous Coleman, sem var stórkostlegur í leikjunum tveimur og er frábær leiðtogi, var utan hóps fyrir nokkrum vikum,“ sagði Dunphy og hélt áfram:

„Nei er því svarið. Á sama tíma verður að gefa leikmönnum og stuðningsmönnum gríðarlegt hrós. Leikmennirnir nærðust á stuðningsmönnunum sem ferðuðust og líka þeim sem voru á Aviva leikvanginum – við vorum með 50.000 manns á Aviva í síðustu viku. Þetta er ungt lið, ungir leikmenn, með hungur og þor til að láta slag standa,“ sagði Dunphy.

Síðar kallaði hann Heimi „dásamlegan“ þjálfara. „Sem þú vilt reka?“ spurði þá þáttastjórnandinn. „Já, tannlæknirinn! Já, tja, það gæti enn verið að hann verði rekinn,“ sagði Dunphy en bætti við að það yrði þó með hreinum ólíkindum eftir síðustu leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×