Skoðun

Mótor­hjólin úti – Fjór­hjólin inni

Nú styttist í að fjárlög þessarar ríkisstjórnar, með breytingum, verði samþykkt. Aðeins er eftir 3. umræða og enn eru vörugjöld á mótorhjól í 40%, hversu galið sem það er. Það sækir að manni hálfgert vonleysi og maður veltir því fyrir sér á svona stundum hvers það á eiginlega að gjalda, mótorhjólafólk á Íslandi. Enn og aftur er verið að hækka gjöld á þennan hóp, að því er virðist án nokkurra raka. Það er því ekki nema von að maður spyrji; „Hvenær fáum við stjórnvöld sem eru vilhöll mótorhjólafólki?“

Einu rök stjórnvalda fyrir þessari hækkun eru að ekki megi hygla ökutækjum sem blása út CO2. Samt virðist það vera í lagi þegar kemur að dráttarvélum í flokki T3 sem fá undanþágu frá vörugjöldum með þeim rökum að „það séu enn sem komið er ekki á markaði hreinorkuökutæki sem þjónað gætu sama tilgangi og dráttarvélar í flokki T3.“ Í þessu sambandi skal bent á það að við mótorhjólafólk höfum einmitt bent á þá staðreynd að ekki megi hækka vörugjöld á okkar flokk þar sem ekki er til annar valkostur í tvíhjóla hreinorkuökutækjum sem heitið getur.

Hvað eru dráttarvélar í flokki T3 kynni einhver að spyrja? Jú, það eru einfaldlega fjórhjól og sexhjól. Í frekari rökstuðningi stjórnvalda er svo bent á að fjór- og sexhjól eyði langtum minna eldsneyti en aðrar stærri dráttarvélar. Það eru svipuð rök og við mótorhjólafólk höfum haldið á lofti varðandi okkar farartæki. Þau eru margfalt léttari en bílar, eyða minna og slíta vegakerfinu margfalt minna. Það sannast því hið forkveðna að það er ekki sama hvort það sé Jón eða Séra Jón.

Höfundur er bifhjólakennari, og mótorhjólamaður til 40 ára.




Skoðun

Sjá meira


×