Erlent

Heimta enn héruð Úkraínu sem þeir halda ekki

Samúel Karl Ólason skrifar
Sergei Ríabkóv, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands.
Sergei Ríabkóv, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands. EPA/ALEXANDER ZEMLIANICHENKO

Rússar munu ekki slaka neitt á kröfum sínum varðandi Krímskaga, Donabas-svæðið eða önnur svæði sem Rússar hafa innlimað í Úkraínu. Slíkt kemur ekki til greina og myndi koma niður á fullveldi Rússlands.

Þetta er meðal þess sem Sergei Ríabkóv, aðstoðarutanríkisráðherra Rússlands, sagði í viðtali við ABC News í Bandaríkjunum.

Hann sagði að friður hefði aldrei verið eins nærri og nú en að Rússar myndu aldrei sætta sig við viðveru Atlantshafsbandalagsins, eða hermanna frá Vesturlöndum, í Úkraínu. Slíkt yrði liður í öryggistryggingum sem Úkraínumenn segja nauðsynlegar til að semja um frið.

Sjá einnig: Úkraína fái tryggingar sem jafn­gilda 5. greininni

Viðræður um mögulegan frið hafa átt sér stað á undanförnum vikum. Viðræðurnar hófust í kjölfar þess að fregnir bárust af því að þeir Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, og Jared Kushner, tengdasonur forsetans, auk rússneska auðjöfursins Kirill Dmitríev, sem er sérstakur erindreki Vladimírs Pútín, forseta Rússlands, hefðu samið nýja friðaráætlun.

Þá hefur því verið haldið fram að skjalið hafi að miklu leyti byggt á tillögum sem Dmitríev skrifaði skömmu eftir að Trump sneri aftur í Hvíta húsið í janúar.

Þá kom í ljós að Witkoff hafði rætt það við Júrí Úsjakóv, aðstoðarmann Pútíns, hvernig rússneski forsetinn gæti haft mest áhrif á Trump og fengið hann á sitt band.

Heimta svæði sem þeir stjórna ekki

Rússar hafa innlimað fimm héruð Úkraínu inn í Rússneska ríkissambandið, samkvæmt breytingum sem gerðar voru á stjórnarskrá Rússlands á undanförnum árum. Um er að ræða Krímskaga, Kherson, Sapórisjía, Dónetsk og Lúhansk.

Af þessum héruðum stjórna Rússar eingöngu Krímskaga og Lúhansk að fullu. Þeir stjórna stórum hluta Dónetsk en hafa átt í töluverðu basli með að ná héraðinu að fullu. Yfirráðasvæði Úkraínumanna þar er talið mjög víggirt.

Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, sagði í dag að bandarískir erindrekar hefðu heitið því að land þar sem Rússar hefðu búið um aldir yrði aftur hluti af Rússlandi. Hann var þar líklega að vísa til Donbas-svæðisins.

Þegar kemur að Kherson og Spaórisjía stjórna Rússar ekki stórum hluta þeirra héraða.

Í viðtalinu vísaði Ríabkóv til atkvæðagreiðslna sem hefðu verið haldnar í Dónetsk og Lúhansk árið 2022, undir hernámi Rússa, og að þau héruð tilheyrðu Rússlandi, samkvæmt niðurstöðum þeirra kosninga.

Vísaði hann til sambærilegra atkvæðagreiðslna sem framkvæmdar voru á yfirráðasvæðum Rússa í Kherson og Sapórisjía.

Hafi alltaf tilheyrt Rússlandi

Aðspurður um hvernig hægt væri að halda sanngjarnar atkvæðagreiðslur undir hernámi, laug Ríabkóv því að svæðið hafi ekki verið hernumið af öðru ríki. Það tilheyrði Rússlandi.

„Þetta er ekki annarra land. Þetta var ekki eitthvað sem við tókum á tunglinu eða annarsstaðar á okkar plánetu,“ sagði Ríabkóv. Hann sagði þessi héruð alltaf hafa tilheyrt Rússlandi.

Ríabkóv vísaði til Euromaidan mótmælanna árið 2014, sem hann kallaði valdarán, þegar Viktor Janúkóvits, fyrrverandi forsætisráðherra, flúði til Rússlands frá Úkraínu. Þá hafi íbúar þessara héraða ákveðið að biðja Rússa um að koma þeim til bjargar.

Viðtalið við Ríabkóv má sjá í spilaranum hér að neðan.

Ekki benda á mig

Í viðtalinu sagði aðstoðarráðherrann einnig að stríðið væri Atlantshafsbandalaginu að kenna. Útbreiðsla þess til austurs hefði leitt til innrásar Rússa í Úkraínu. Bandalagið væri í grunninn mjög árásargjarnt í garð Rússlands og Rússar litu á það sem andstæðing.

Það myndi ekki breytast í fyrirsjáanlegri framtíð.

Ráðamenn í Rússlandi og málpípur þeirra hafa ítrekað sakað NATO um að bera ábyrgð á stríðinu. Oft hafa þeir vísað til þess að Rússum eigi að hafa verið lofað að NATO myndi ekki hleypa ríkjum Austur-Evrópu inn í bandalagið, sem er ekki rétt eins og áður hefur verið farið yfir.

Sjá einnig: Segir ásakanir Evrópu barnalegar

Þá má vísa til ummæla Pútins frá 2002, þegar hann var spurður út í mögulega aðild Úkraínu að NATO. Þá sagði hann það í raun ekki koma Rússlandi við. Það væri á milli NATO og Úkraínu.

Sagði sjálfur að engin innrás yrði gerð, skömmu fyrir innrásina

Árið 1994 skrifuðu ráðamenn í Rússlandi, Úkraínu, Bandaríkjunum og í Bretlandi undir Búdapest-samkomulagið. Þá létu Úkraínumenn af hendi kjarnorkuvopn og sprengjuflugvélar frá Sovétríkjunum og sendu til Rússlands.

Í staðinn hétu ráðamenn í Rússlandi því að virða fullveldi Úkraínu og landamæri ríkisins og hétu þeir því einnig að beita aldrei valdi gegn Úkraínu, hvorki hernaðarlegu né efnahagslegu.

Bandaríkjamenn og Bretar hétu því að tryggja að samkomulaginu yrði framfylgt.

Þegar Ríabkóv var bent á það og hans eigin orð frá upphafi 2022 um að engin innrás yrði gerð í Úkraínu, nokkrum dögum áður en innrásin hófst, og spurður af hverju Úkraínumenn ættu að geta treyst einhverju sem Rússar segja sagði hann að ekki hefði verið hægt að framfylgja samkomulaginu þar sem ríkisstjórn Úkraínu þjónaði ekki öllum íbúum ríkisins.

Vísaði hann aftur í atkvæðagreiðslurnar undir hernámi um innlimun Rússlands á héruðunum fimm og sagði að íbúar þar hefðu ekki viðurkennt breytingarnar sem orðið hefðu á Úkraínu árið 2014.

Þá sagði hann að Rússar hefðu á sama tíma ekki tilefni til að treysta neinu frá Úkraínumönnum og Vesturlöndum. Hann sagði réttast að horfa til framtíðar.


Tengdar fréttir

Grönduðu kafbát í fyrsta sinn með neðansjávardróna

Útsendarar einnar af leyniþjónustum Úkraínu, sem kallast Öryggisþjónusta Úkraínu (SBU), grönduðu rússneskum kafbáti við bryggju í Novorossiysk við Svartahaf í Rússlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem vitað er til þess að kafbáti sé grandað með neðansjávardróna.

Witkoff fundar með Selenskí

Steve Witkoff, sérstakur erindreki og samningamaður Bandaríkjastjórnar í friðarviðræðum Úkraínu og Rússlands, fundar í Berlín um helgina með Volodomír Selenskí Úkraínuforseta og nokkrum Evrópuleiðtogum. Ríkisstjórn Donalds Trump vill að samkomulag náist um frið fyrir jól, en helsti ásteytingarsteinninn virðist vera möguleg eftirgjöf hernumdra svæða í austurhluta Úkraínu til Rússlands.

Selenskí í Kúpíansk, sem Pútín sagðist hafa hernumið

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, birti í dag myndband sem hann tók á götum borgarinnar Kúpíansk. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og forsvarsmenn rússneska hersins héldu því fram í síðasta mánuði að borgin hefði verið hernumin að fullu en nú berast fregnir af því að Úkraínumenn séu að reka Rússa úr borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×