Körfubolti

Guð­björg fyrsta konan í fjögur hundruð leikina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Sverrisdóttir var heiðruð þegar hún sló leikjamet efstu deildar í gær. Hér er hún með Svala Björgvinssyni, formanni Körfuknattleiksdeildar Vals. 
Guðbjörg Sverrisdóttir var heiðruð þegar hún sló leikjamet efstu deildar í gær. Hér er hún með Svala Björgvinssyni, formanni Körfuknattleiksdeildar Vals.  Vísir/Anton Brink

Guðbjörg Sverrisdóttir varð í gærkvöldi fyrsta konan til að spila fjögur hundruð deildarleiki í efstu deild. Hún setur leikjamet í hverjum leik.

Guðbjörg varð jafnframt aðeins sjöundi körfuboltaleikmaðurinn sem nær að spila fjögur hundruð deildarleiki í íslensku deildinni en hinir meðlimirnir í klúbbnum eru Hlynur Bæringsson, Marel Örn Guðlaugsson, Guðjón Skúlason, Páll Axel Vilbergsson, Teitur Örlygsson og Valur Ingimundarson.

Guðbjörg lék þennan tímamótaleik með Val og á móti einu af sínum fyrri félögum. Valur vann þá 31 stigs sigur á Hamar/Þór á Hlíðarenda. Guðbjörg spilaði í tæpar tólf mínútur og var með þrjú stig og þrjú fráköst. Hún setti niður einn þrist úr þremur skotum.

Guðbjörg sló leikjamet Sigrúnar Sjafnar Ámundadóttur á síðasta tímabili og er nú komin með átján leikja forskot á toppnum.

Guðbjörg hefur leikið 325 af þessum 400 leikjum með Val en 37 lék hún með uppeldisfélagi sínu Haukum og 38 leiki lék hún með Hamri.

Guðbjörg var aðeins fjórtán ára og fjögurra mánaða þegar hún lék sinn fyrsta leik með Haukum á móti ÍS 11. febrúar 2007. Ferill hennar í efstu deild spannar nú næstum því átján ár.

Guðbjörg hefur verið í sigurliði í 255 af þessum 400 leikjum eða 64 prósent leikjanna.

Hlynur Bæringsson á karlametið og flesta leiki í efstu deild á Íslandi hjá báðum kynjum. Guðbörgu vantar enn 23 leiki til að ná því meti og yrði þá að spila næsta tímabil líka til að ná í skottið á Hlyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×