Skoðun

Sam­sköttun, samnýting eða skatta­hækkun?

Kristófer Már Maronsson skrifar

Allt fólk sem hér greiðir skatta á að njóta þess frelsis að ríkisstjórnin eða sveitarfélagið sem það býr í veiti þeim góða grunnþjónustu og sveigjanleika til að takast á við hvað það sem daglegt líf ber í skauti sér hverju sinni. Við eigum það skilið að vera látin í friði og fá að haga okkar lífi eins og við viljum svo lengi sem aðrir bera ekki skaða af okkar gjörðum. Það á ekki að þurfa langa menntun eða svefnlausar nætur til þess að skilja leikreglur samfélagsins, til þess að hægt sé að gera áætlun um hvernig eigi að lifa af næstu mánaðamót eða bjóða börnunum upp á glaðan dag í kringum jól.

Í grunninn held ég að fólk geti verið nokkuð sammála um þessa fullyrðingu. Einhvern veginn er það nú samt þannig að stjórnmálamenn eru alltaf að krukka í leikreglum og gera lífið flóknara, en kalla það jafnvel einföldun. Undanfarið hefur verið þrætt um hvort afnám samsköttunar, eða þess hluta sem snýr að samnýtingu skattþrepa, sé eitthvað sem nýtist bara vonda óvenjulega tekjuhæsta fólkinu í samfélaginu og að Sjálfstæðisflokkurinn, sem er að sögn margra bara að verja „þetta djöfulsins, helvítis, andskotans [ríka] pakk”, hafi „verulega hagsmuni af því að segja okkur ósatt”.

Staðhæfingar sem ekki standast

Það er auðvelt að henda fram fullyrðingum án rökstuðnings, líkt og Þórður Snær og fleiri hafa gert undanfarið. Línan er að „þau sex prósent landsmanna með hæstu launin” græði á samnýtingu skattþrepa. Svo ég vitni í Þórð: „Þetta er ósatt. Þvæla.” Rekjum það lið fyrir lið.

  1. Samnýting skattþrepa gengur bara fyrir hjón og sambúðarfólk. Einstaklingar sem eru hluti af sex prósentum landsmanna með hæstu launin geta ekki nýtt sér samnýtingu skattþrepa.
  2. Samnýting skattþrepa krefst þess að annar aðilinn sé ekki í þriðja skattþrepi. Þar af leiðandi er sá aðili ekki hluti af þeim sex prósentum landsmanna með hæstu launin.
  3. Svar fjármála- og efnahagsráðherra sýnir skýrt að 14.500 fjölskyldur á árinu 2024 nýttu sér heimildina. Væntanlega allt óvenjulegt fólk.

Það er svo að meðal „skattaafsláttur” (sem er rangnefni eins og greinin leiðir af sér) þeirra sem samnýta skattþrep og voru í hópi þeirra 10% tekjuhæstu (tekjutíund 10) á árinu 2024 var 2.538 kr.

19% fjölskyldna samnýtti skattþrep 2024

Skoðum nú leiðinlega hlutann. Tölur. Samkvæmt fjármálaráðuneytinu nýttu 14.500 fjölskyldur heimildina árið 2024. Samkvæmt Hagstofunni voru 77.095 fjölskyldur í landinu árið 2024. Það þýðir að tæp 19% fjölskyldna samnýttu skattþrep. Næstum ein af hverjum fimm. Það eru fleiri fjölskyldur heldur en búa í öllu Norðvesturkjördæmi. En hvað er að breytast?

Þeir sem samnýta skattþrep borga meira í dag og enn meira á morgun

Tökum dæmi af tveimur fjölskyldum. Gerum ráð fyrir að nánast allt sé eins. Fjölskyldurnar búa hlið við hlið, í jafn stórri íbúð, börnin þeirra tvö fæddust sama dag o.s.frv. Annars vegar eru það foreldrarnir Jón og Gunna og hins vegar Páll og Anna. Báðar fjölskyldur eru að meðaltali með 800 þúsund krónur í laun á hverja fyrirvinnu, en því er misskipt. Gunna er með 1600 þúsund á mánuði, því hún vinnur dagvinnu ásamt kvöld- og helgarvinnu á meðan Jón er tekjulaus heima með barn eftir fæðingarorlof þar sem þau fengu ekki leikskólapláss í Reykjavík. Páll og Anna eru hins vegar bæði með 800 þúsund krónur á mánuði og síðasta leikskólaplássið. Til að gera leiðinlega sögu styttri skoðum við mynd. Jón og Gunna eru óvenjulegt fólk, þau samnýta skattþrep í dag, en borga samt 368 þúsund kr. meira á ári í skatt en Anna og Páll. Eftir breytingu ríkisstjórnarinnar munu þau borga 578 þúsund kr. meira á ári í skatt en Anna og Páll. Það slagar upp í vikuferð með fullu fæði til Tenerife fyrir tvo fullorðna og tvö börn. Fjölskyldurnar eru með sömu heildarlaun.

Kallast þetta sanngjarnt? Réttlátt? Að loka glufum? Hver er það sem nýtur skattkerfisins eins og það er sett upp? Eru það Jón og Gunna eða Anna og Páll? Anna og Páll geta bæði nýtt skattþrep eitt, sem er töluvert lægra en tvö og þrjú. Anna og Páll eru venjuleg í augum ríkisstjórnarinnar. Jón og Gunna eru hins vegar óvenjuleg, vond og tekjuhá. Þau eru pottþétt Sjálfstæðismenn. Sem gagnrýna það að gæluverkefnum hafi verið forgangsraðað fram yfir grunnþjónustu. Sem gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að gera fólki í óvenjulegum aðstæðum lífið erfiðara. Óvenjulegt fólk með börn sem kemst ekki inn á leikskóla, óvenjulegt fólk sem getur ekki unnið vegna veikinda eða örorku, óvenjulegt fólk sem er í námi o.s.frv. Allt þetta óvenjulega fólk sem stendur ekki og situr eftir vilja ríkisins.

Ertu venjuleg/ur?

Vandinn við þennan málflutning er að hann gengur ekki upp. Ég sá það fyrir löngu, en það tók mig tvo klukkutíma að skrifa þessa grein og reyna að setja hana upp þannig að fólk með lítinn tíma myndi ná skilaboðunum. Kannski tókst það, kannski ekki. Ég hafði ekki tíma fyrir það núna fyrr en mörgum dögum eftir að Þórður skrifaði sína grein. Ég er ekki venjulegur, í augum flestra. Ég er mjög sáttur við það. Ég er ég. Ég er nörd. Ég elska að gera það sem aðrir kalla leiðinlega hluti. Finnst súkkulaði vont. Þrjú börn fyrir þrítugt. Ekki með lyktarskyn. Ég er ekki einu sinni í sömu skóstærð á vinstri og hægri fæti. Valdi að búa á landsbyggðinni. Það á bara ekki að skipta neinu máli hvort ég eða mín fjölskylda erum venjuleg eða óvenjuleg.

En ég hef ekki „verulega hagsmuni af því að segja ykkur ósatt” eins og Þórður Snær orðar það (og birtir engar heimildir fyrir staðhæfingum sínum). Það á heldur ekki að skipta ríkisstjórnina neinu máli, hvort ég og þú erum venjulegt eða óvenjulegt fólk. Ríkisstjórnin á eftir mesta megni að láta okkur í friði. Ekki að flækja líf okkar.

Samsköttun, samnýting eða skattahækkun?

Hér er það í einföldu máli. Afnám samnýtingar skattþrepa þýðir að óvenjulegar fjölskyldur, sem í dag borga meira í skatt en venjuleg fjölskylda með sömu laun, þurfa að borga enn þá meira í skatt á næsta ári. Það kallast skattahækkun. Ég ætla ekki að væna Þórð Snæ um að segja ósatt, a.m.k. ekki viljandi. Ég held að hann sé að gera sitt besta. Eins og ríkisstjórnin öll. Það er í sumum tilfellum bara ekki nóg. Það er kannski nóg til að vinna umræðuna í fjölmiðlum en ekki nóg til að bæta líf fólks í landinu. Í lok dagsins erum við flest venjulegt fólk, nema ég og 19% þeirra sem tilheyrum fjölskyldu. Óvenjuleg fjölskylda 2025 gæti orðið venjuleg 2026, enda er lífið síbreytilegt.

Leyfum samnýtingu allra skattþrepa

Ég er oft spurður að því hvers vegna ég varð sjálfstæðismaður eftir tvítugt, hafandi verið alinn upp í vinstri sinnaðri fjölskyldu og eytt miklum tíma í félagsheimili sósíalista á Akranesi með ömmu minni sem ég sakna mjög mikið, sérstaklega í kringum jólin.

“Áherslan er að hjálpa þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar, þar sem það er nokkur kostur.”

Þessi stutta setning kjarnar vel mína pólitísku sýn og er ásamt fleirum grunnurinn að stefnu Sjálfstæðisflokksins. Hún á vel við í þessu tilfelli. Samnýting skattþrepa hjálpar þeim sem lenda í hremmingum til sjálfshjálpar. Samnýtingu skattþrepa ætti frekar að útvíkka niður í gegnum allt skattkerfið frekar en að afnema. Skattleggjum fjölskylduna sem eina heild og hættum að skipta okkur af því hvernig fjölskyldur skipta með sér verkum. Svo kerfið sé einfaldara. Svo kerfið sé sanngjarnara. Svo fleiri getið talist venjulegt fólk. Svo Jón og Gunna geti boðið börnunum sínum til Tenerife með Önnu og Páli. Hefði það ekki verið góð jólagjöf?

Höfundur er „óvenjulegur“ hagfræðingur og þriggja barna faðir.




Skoðun

Sjá meira


×