Fótbolti

Breiða­blik, Valur og Þór/KA fengu milljónir vegna EM

Sindri Sverrisson skrifar
Sandra María Jessen er vissulega farin frá Þór/KA aftur í atvinnumennsku í Þýskalandi en félagið er enn að græða á að hafa haft hana í sínum röðum.
Sandra María Jessen er vissulega farin frá Þór/KA aftur í atvinnumennsku í Þýskalandi en félagið er enn að græða á að hafa haft hana í sínum röðum. Getty/Marcio Machado

Breiðablik var í 44. sæti yfir þau félagslið sem fengu hæstu fjárhæðina vegna þátttöku leikmanna á EM kvenna í fótbolta í Sviss í sumar. Alls fengu þrjú íslensk félög tæplega 18,5 milljónir króna.

Breiðablik fékk 59.130 evrur (um 8,7 milljónir króna) vegna þeirra Öglu Maríu Albertsdóttur, Áslaugar Mundu Gunnlaugsdóttur og Telmu Ívarsdóttur, sem allar voru í EM-hópi Íslands.

Valur fékk 43.800 evrur (um 6,5 milljónir króna) vegna Berglindar Rósar Ágústsdóttur og Natöshu Anasi, og Þór/KA fékk 21.900 evrur (um 3,2 milljónir króna) vegna Söndru Maríu Jessen.

Um er að ræða bætur vegna þess tíma sem að leikmenn voru í burtu frá sínum félagsliðum, vegna EM. Alls voru greiddar út níu milljónir evra til 103 félaga í Evrópu, eða rúmlega 1,3 milljarðar króna, og er það tvöföldun frá því á EM 2022.

Barcelona á toppi listans

Upphæðin sem hvert félag fær fer eftir fjölda daga sem leikmenn voru í burtu frá sínu félagsliði, þar með taldir tíu dagar í undirbúningi fyrir mót og einn ferðadagur.

Upphæðin var því 1.095 evrur á dag fyrir hvern leikmann, eða að lágmarki 21.900 evrur fyrir hvern leikmann. Ástæðan fyrir því að Breiðablik fékk ekki þrefalda þá upphæð er sú að greiðsla vegna Telmu skiptist á milli Breiðabliks og skoska félagsins Rangers sem hún var til skiptis á mála hjá í sumar.

Agla María Albertsdóttir var ein þriggja leikmanna Breiðabliks á EM og tryggði sínu félagi þannig milljónir.Getty/Noemi Llamas

Það kemur kannski ekki á óvart að Barcelona fékk mest í sinn hlut en spænska félagið átti átján fulltrúa á mótinu og þar af tíu sem komust í úrslitaleik EM.

Barcelona hlaut 567.210 evrur, eða jafnvirði um 84 milljóna króna. Bayern München, með Glódísi Perlu Viggósdóttur og fjölda fleiri leikmanna, kom næst með 465.375 evrur.

Félögin fimm sem fengu mest:

  1. Barcelona 567.210 evrur
  2. Bayern München 465.375 evrur
  3. Chelsea 462.090 evrur
  4. Juventus 415.005 evrur
  5. Arsenal 408.435 evrur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×