Körfubolti

ÍR-ingar bæta við sig reyndum og hittnum Króata

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Emilio Banić er svaka skytta og hefur líka sýnt það í stórum leikjum á ferli sínum.
Emilio Banić er svaka skytta og hefur líka sýnt það í stórum leikjum á ferli sínum. @bbc.nord.dragonz

ÍR-ingar voru ekki lengi að bæta við sig leikmanni í jólafríinu. Króatíski körfuboltamaðurinn Emilio Banić hefur skrifað undir samning við ÍR og mun spila með Breiðhyltingum í Bónus-deild karla í körfubolta á nýju ári.

Emilio er 31 árs gamall, 196 sentímetrar á hæð og leikur stöðu framherja. Emilio kemur til ÍR með mikla reynslu úr evrópskum körfubolta og hefur leikið í sterkum deildum víðs vegar um Evrópu.

Hann hefur leikið meðal annars í Króatíu, Þýskalandi og Austurríki. Á síðasta tímabili var hann hluti af liði Nord Dragonz sem hafnaði í öðru sæti í austurrísku úrvalsdeildinni, þar sem hann var mikilvægur þáttur í sóknarleik liðsins.

Í úrslitakeppninni í Austurríki sýndi Emilio skotgetu sína utan af velli og var með 52% nýtingu í þriggja stiga skotum, en yfir allt tímabilið var hann með 38% nýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna. 

Þriggja stiga skotin eru einn helsti styrkleiki hans og eitthvað sem ÍR hefur verið að leita eftir í vetur samkvæmt frétt á miðlum ÍR-inga.

„Emilio er leikmaður sem passar mjög vel inn í það sem við erum að byggja upp. Hann kemur með mikla reynslu úr sterkum deildum, er yfirvegaður í sókn og hefur sýnt að hann getur hitt stór skot þegar mikið er undir. Við teljum hann styrkja hópinn okkar og erum mjög ánægðir með að fá hann til ÍR,“ segir Borche Ilievski, þjálfari meistaraflokks karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×