Golf

Hættur að­eins þrí­tugur

Sindri Sverrisson skrifar
Mito Pereira er hættur eftir tíu ára feril sem atvinnumaður í golfi.
Mito Pereira er hættur eftir tíu ára feril sem atvinnumaður í golfi. Getty/Angel Martinez

Kylfingurinn Mito Pereira, sem þekktastur er fyrir að hafa kastað frá sér afar óvæntum sigri á PGA meistaramótinu fyrir þremur árum, hefur ákveðið að setjast í helgan stein aðeins þrítugur að aldri.

Pereira, sem er Sílebúi, tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum í dag.

Atvinnumannsferill hans spannaði því tíu ár en Pereira kveðst einfaldlega hafa viljað draga úr ferðalögum og einbeita sér að fjölskyldu sinni.

Hann hefur leikið á LIV-mótaröðinni síðustu þrjú keppnistímabil og samtals unnið þrettán sigra á mismunandi mótaröðum á ferlinum.

Merkasti árangur hans var á PGA meistaramótinu árið 2022, sem var aðeins annað risamótið sem Pereira spilaði á, því þar endaði Pereira í 3. sæti.

Hann hafði hins vegar verið afar nálægt því að vinna mótið því hann hóf lokahringinn með þriggja högga forskot og var enn með eins höggs forskot á lokaholunni en fékk þar tvöfaldan skolla og endaði höggi á eftir Justin Thomas og Will Zalatoris. Thomas endaði á að vinna mótið í bráðabana.

„Eftir mörg ár í tengslum við þessa fallegu íþrótt þá breytist forgangsröðunin eðlilega. Í dag vil ég fyrst og fremst hætta stöðugum ferðalögum, snúa heim til Síle og einbeita mér að einkalífinu,“ sagði Pereira í tilkynningu sinni í dag.

„Ég varði mörgum árum að heiman, í öðrum löndum, óteljandi vikum á hótelum og á flugvöllum. Núna er kominn tími á hlé. Síle er minn staður í heiminum og fjölskyldan er það sem ég lifi fyrir. Golfið kenndi mér þrautseigju, að takast á við bæði góðar og erfiðar stundir, og að tileinka mér aga og markmiðasetningu. Ég tel mig vel undirbúinn fyrir það sem fram undan er,“ sagði Pereira.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×