Erlent

„Banda­ríkin eiga ekki að taka yfir Græn­land“

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mette Fredriksen er ekki ánægð með bandaríska forsetann.
Mette Fredriksen er ekki ánægð með bandaríska forsetann. Samsett/EPA

Utanríkisráðherra Danmerkur hyggst boða sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku á fund sinn til að ræða skipun Bandaríkjaforseta á sendifulltrúa fyrir Grænland. Fjöldi leiðtoga í Evrópusambandinu segist standa með Dönum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur ítrekað talað opinberlega um hvernig hann girnist Grænland, sem er nú undir stjórn Danmerkur. Í gær tilkynnti forsetinn á Truth Social, samfélagsmiðlinum sínum, að hann hefði skipað sérstakan sendifulltrúa til að sinna málefnum Grænlands.

Í sameiginlegri yfirlýsingu segja Mette Fredriksen, forsætisráðherra Danmerkur, og Jens-Frederik Nielsen, landstjóri Grænlands, að það sé ekki í boði að innlima önnur lönd þrátt fyrir rökstuðning um að það varði alþjóðlegt öryggi. 

„Grænland tilheyrir Grænlendingum og Bandaríkin eiga ekki að taka yfir Grænland,“ segja þau samkvæmt DR.

„Við væntum virðingar fyrir sameiginlegri landhelgi okkar.“

Samkvæmt skoðanakönnun sem var framkvæmd í Grænlandi í janúar vilja langflestir af 57 þúsund íbúunum sjálfstæði frá Danmörku. Þeir vilja þó ekki verða hluti af Bandaríkjunum samkvæmt The Guardian.

Grafi undan fullveldi konungsdæmisins

Í færslu Trumps sagði hann að Jeff Landry, nýi sendifulltrúinn, skildi hversu mikilvægt Grænland væri fyrir þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Landry birti einnig sína eigin færslu þar sem hann sagði það heiður að fá að þjóna Trump og gera Grænland að hluta af Bandaríkjunum.

Lars Lokke Rasmussen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði að hann myndi boða sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku á sinn fund til að fá skýringar á skipun sendifulltrúans. Hann sagðist vera virkilega óánægður með skipunina og sérstaklega vegna ummæla Landry.

„Svo lengi sem við erum með konungsdæmi í Danmörku sem samanstendur af Danmörku, Færeyjum og Grænlandi, getum við ekki samþykkt að það séu einhverjir sem grafi undan fullveldi okkar,“ segir Rasmussen.

Keppast um að styðja við Dani

Fjöldi evrópskra leiðtoga hefur lýst yfir stuðningi sínum við Danmörku. Þeirra á meðal er Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem segir að landhelgi og fullveldi séu grundvallarreglur alþjóðalaga.

María Malmer Stenergard, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur einnig lýst yfir stuðningi sínum við Danmörku og það hafa fulltrúar frá Þýskalandi, Lettlandi, Litháen og Eistlandi gert.

Áhugi Trumps á Grænlandi vaknaði á fyrri embættistíð hans árið 2019 og sóttist hann eftir því að kaupa Grænland af Danmörku, sem forsvarsmenn Danmerkur neituðu. Hann tók aftur upp hugmyndina þegar hann tók aftur við forsætisembættinu. 

Bæði Donald Trump yngri, sonur þeirra eldri, og JD Vance, varaforseti Bandaríkjanna, hafa heimsótt landið á árinu. Danir héldu áfram að mótmæla sókn Bandaríkjanna. Eftir að Nielsen tók við embætti landstjóra í mars hefur hann einnig mótmælt áætlunum Trumps.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×