Sport

„Þetta er skrýtið fyrir alla“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tómas Bent þegar hann skoraði fyrir Hearts á dögunum.
Tómas Bent þegar hann skoraði fyrir Hearts á dögunum. vísir/getty

Knattspyrnumaðurinn Tómas Bent Magnússon hefur slegið í gegn með toppliði skoska boltans í vetur. Hann gekk óvænt í raðir Hearts um mitt sumar þegar hann var keyptur frá Val. Hearts tapaði gegn Hibernian 2-1 um helgina en er samt sem áður með þriggja stiga forskot á toppi skosku úrvalsdeildarinnar í fótbolta.

Tómas var á sínum stað í byrjunarliði Hearts sem hefur komið gríðarlega á óvart á tímabilinu. Á dögunum gerði liðið sér lítið fyrir og lagði Rangers að velli, 2-1. Það var annar sigur Hearts á Rangers á tímabilinu en liðið hefur einnig unnið Celtic í tvígang. Hearts er með 41 stig á toppi skosku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum á undan Celtic. Tómas Bent og félagar hafa aðeins tapað tveimur af átján deildarleikjum sínum í vetur. Þessi 23 ára Eyjamaður hefur leikið sextán leiki í skosku úrvalsdeildinni á tímabilinu og skorað eitt mark.

„Þetta er búið að vera ákveðið ævintýri,“ segir Tómas í Sportpakkanum á Sýn í gærkvöldi.

Ekki gerst síðan 1993

„Þetta var alveg ákveðið sjokk. Að koma inn á í fimm mínútur í fyrsta leik gegn Aberdeen og spila fyrir framan allan þennan mannfjölda og ná að hrista það svolítið af sér. Maður var vanur að spila fyrir framan nokkur hundruð manns,“ segir Tómas og heldur áfram.

„Um daginn var maður síðan að spila á Celtic Park fyrir framan sextíu þúsund manns og þetta venst bara,“ segir miðjumaðurinn. Hann segir að það hafi ekki endilega komið honum á óvart hversu stórt hlutverk hann fékk í liðinu frá upphafi.

„Ég kom inn í þetta með það hugarfar að gera eins vel og ég get. Ég hef fengið séns og ég hef reynt að nýta það eins vel og ég get og það hefur gengið þokkalega hingað til. Þegar ég samdi við liðið var sagt við mig að á næstu fimm til tíu árum væri markmiðið að vinna deildina. En við tökum bara einn leik í einu. Við vorum á toppnum um jól og það hefur ekki gerst að það sé annað lið en Celtic og Rangers síðan 1993, svo þetta er skrýtið fyrir alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×