Skoðun

Sögu­legt ár í borginni

Skúli Helgason skrifar

Árið hefur verið viðburðaríkt í borginni en það byrjaði með miklum pólitískum jarðskjálftum í lok janúar og svo sprengingu þegar oddviti Framsóknarflokksins sleit meirihlutasamstarfinu í fyrstu viku febrúar. Við tók nýr meirihluti Samfylkingarinnar, Pírata, Sósíalistaflokksins, Vinstri grænna og Flokks fólksins - fyrsti fimm flokka meirihlutinn í sögu borgarstjórnar. Samstarfið hefur einkennst af mikilli samstöðu og miklu hefur verið komið í verk á þeim 10 mánuðum sem liðnir eru.

Börn og barnafjölskyldur í forgangi

Nýju samstarfsflokkarnir hafa fylgt þeirri skýru stefnu að forgangsraða í þágu barna og barnafjölskyldna og helstu fjárfestingar ársins endurspegla það. Þar munar mestu um nýja kjarasamninga, en líka mikilvæga samninga um húsnæðisuppbyggingu, aðgerðir í leikskólamálum og frístundamálum barna, áherslu á forvarnir og lýðheilsu og margt fleira. Síðast en ekki síst skipti miklu að samkomulag náðist við ríkið sem tryggir fjármögnun á málaflokki barna með fjölþættan vanda sem framvegis verður á höndum ríkisins.

Kjarasamningar í þágu mennta og jafnaðar

Nýir kjarasamningar kennara voru undirritaðir í ársbyrjun og þar með var afstýrt verkföllum sem lamað hefðu menntakerfi landsins. Kennarar gegna lykilhlutverki í menntakerfi borgarinnar og samningarnir voru ný varða á þeirri leið að bæta í markvissum skrefum kjör og starfsaðstæður þeirrar stéttar sem ræður svo miklu um menntun og velferð barnanna í borginni. Kjarasamningarnir komu í kjölfarið á innleiðingu nýs fjárhagslíkans leikskóla sem tók gildi um áramót en því fylgdi tæplega 2 milljarða viðbótarfjárfesting í leikskólunum, þar sem meginmarkmið er að auka jafnræði milli barna, leikskóla og hverfa og taka betur tillit til mismunandi þarfa leikskólanna út frá lýðfræðilegri samsetningu barnahópsins. Uppbygging nýs leikskólahúsnæðis er í fullum gangi, þar sem yfir 1200 ný pláss hafa orðið til á liðnum árum og nærri 1800 til viðbótar eru í undirbúningi.

Tímamótasamningur um húsnæðisuppbyggingu

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarstjóri og oddviti okkar jafnaðarmanna undirritaði merkilegt samkomulag við ríkisstjórnina um uppbyggingu á fjölbreyttu húsnæði á Höllunum í Úlfarsárdal. Þar er gert ráð fyrir allt uppbyggingu í samvinnu við verkalýðshreyfinguna á allt að 4000 íbúðum í blandaðri byggð, þar sem m.a. verður byggt hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur og félagslegt húsnæði fyrir efnaminna fólk

Aukinn jöfnuður í frístundamálum barna

Markmið um aukna þátttöku barna í íþróttum og öðru skipulögðu frístundastarfi hafa náðst með hækkun frístundastyrksins og sérstök áhersla var lögð á árinu í að móta aðgerðir í Breiðholti og á Kjalarnesi þar sem þátttakan hefur verið hvað minnst. Þar er lykilatriði að ná til barnafjölskyldna af erlendum uppruna með fjölbreyttum tilboðum sem hæfa öllum kynjum. Ríkisstjórnin studdi myndarlega við verkefnið í Breiðholti sem gerir kleift að ná enn meiri árangri í þéttu samstarfi við íþróttafélögin, skóla og tónlistarskóla og aðra haghafa í hverfinu.

Uppbygging íþróttamannvirkja

Mikilvægir áfangar náðust á árinu um uppbyggingu íþróttamannvirkja í Vesturbænum sem lengi hefur verið beðið eftir, gengið var frá samningi um byggingu fjölnota íþróttahúss með tryggðri fjármögnun og svo var byggður nýr keppnisvöllur í knattspyrnu sem leysir úr brýnni þörf yngri sem eldri iðkenda. Uppbygging Þjóðarhallar í Laugardalnum er í fullum gangi og mikil vinna stendur yfir við nýja forgangsröðun íþróttamannvirkja sem mun vísa veginn í uppbyggingu komandi ára.

Traust og ábyrg fjármálastjórn

Jöfnuður og markviss uppbygging hefur einkennt verk samstarfsflokkanna á þessu ári en líka traust og ábyrg fjármálastjórn sem þrátt fyrir áskoranir í tengslum við kjarasamninga og lífeyrisskuldbindingar hefur skilað jákvæðri afkomu sem farið hefur stöðugt batnandi eftir því sem liðið hefur á árið. Það skiptir miklu til að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi sókn á komandi ári í þágu barna, barnafjölskyldna og allra annarra sem reiða sig á stuðning og þjónustu borgarinnar. Gleðilegt ár og takk fyrir það gamla!

Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.




Skoðun

Skoðun

Hin­segin

Guðmundur Ingi Þóroddsson skrifar

Sjá meira


×