Fótbolti

Neymar montar sig af einka­flug­vél, þyrlu og leðurblökubíl

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Neymar hefur þénað vel á fótboltaferli sínum og hefur efni á því að safna að sér rándýrum farartækjum af öllum mögulegum gerðum.
Neymar hefur þénað vel á fótboltaferli sínum og hefur efni á því að safna að sér rándýrum farartækjum af öllum mögulegum gerðum. Getty/Marco Buenavista

Brasilíski knattspyrnumaðurinn Neymar hefur þénað vel á fótboltaferli sínum og hefur efni á því að ferðast á milli staða með glæsibrag.

Neymar hefur ákveðið að gera nýjan samning við Santos út þetta ár og spila áfram í brasilísku deildinni. Hann þurfti að fara í aðgerð eftir síðasta tímabil sem gæti komið í veg fyrir þátttöku hans á HM næsta sumar.

„Santos er heimili mitt, það er hér sem ég er hamingjusamur. Það er með Santos sem ég vil elta þá drauma sem ég hef ekki enn náð,“ sagði Neymar í skilaboðum til stuðningsmanna eftir samningsframlenginguna.

Það hefur ekki dregið úr löngun hans til að spila meira fyrir land sitt. Neymar er markahæsti leikmaður Brasilíu frá upphafi með 79 mörk í 128 leikjum, en hefur ekki spilað með landsliðinu síðan í október 2023.

Landsliðsþjálfarinn Carlo Ancelotti hefur sagt að Neymar verði að vera alveg laus við meiðsli áður en hann getur snúið aftur í landsliðið.

Ein nýjasta samfélagsmiðlafærsla Neymars fór í það að monta sig aðeins af þessum glæsilegustu fjaraskjótum sínum.

Neymar getur nefnilega valið á milli þess að fara í einkaþotu, leðurblökuþyrlu og leðurblökubíl. Neymar sýnir farartækin sín á samfélagsmiðlum með skilaboðunum: „Draumar geta ræst“.

Eftirlíkingin af Leðurblökubílnum, sem tók fimmtíu manna teymi þrjú ár að smíða, var flutt í einkabílskúr Neymars frá Dream Car Museum nálægt Sao Paulo. Þessi sérstaki bíll kostaði meira en 170 milljónir króna þrátt fyrir að vera ekki einu sinni löglegur til aksturs á vegum.

Markahæsti landsliðsmaður Brasilíu frá upphafi er mikill aðdáandi Leðurblökumannsins en hann var myndaður á frumsýningu „The Batman“ í París árið 2022 með leikurunum Robert Pattinson og Zoe Kravitz.

Ásamt leðurblökuþyrlunni sinni, sem er sögð vera tíu milljóna punda virði, og Dassault Falcon 900LX einkaþotunni sinni – sem er sögð vera 37 milljóna punda virði – hækkar nýi leðurblökubíll Neymars verðmæti þess hluta safnsins í tæplega fimmtíu milljónir punda samtals, sem gera meira en 8,5 milljarða í íslenskum krónum.

Þetta er samt aðeins toppurinn á ísjakanum. Neymar státar af ótrúlegu úrvali bíla, þar á meðal Rolls-Royce Ghost að verðmæti þrjú hundruð þúsund pund, 51 milljón króna, sem hann keypti á síðasta ári.

Hann hefur einnig sést aka meðal annars Bentley Continental GT, Aston Martin DBX, Lamborghini Huracan, Mercedes G Wagon og Maserati MC12 sem eru allt miklar glæsikerrur.

Neymar tryggði sér fjárhagslegt öryggi með því að verða einn af bestu leikmönnum heims hjá Santos, Barcelona og síðan Paris Saint-Germain.

En bankareikningur hans tók stökk upp á við eftir að hann skrifaði undir ábatasaman samning við sádiarabíska liðið Al-Hilal árið 2023. Þeir greiddu honum svimandi 2,5 milljónir punda á viku á einu og hálfu ári þar sem hann spilaði aðeins sjö leiki.

Það gerir hvorki meira né minna en 193,8 milljónir punda samtals og 38,7 milljónir punda fyrir hvern leik eða 6,6 milljarða króna.

Neymar tók á sig gríðarlega launalækkun til að fara aftur til uppeldisfélags síns Santos á síðasta ári en hann státar samt af ótrúlegri eign upp á rúmlega 330 milljónir punda eða 56 milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×