Skoðun

Hafnar­fjörður er ekki bið­stofa

Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar

Í áratugi hefur Reykjanesbrautin klofið Hafnarfjörð í tvennt. Á hverjum morgni horfa íbúar í Setbergi og Suðurbæ á eftir dýrmætum tíma í biðröðum sem virðast engan endi ætla að taka. Staðreyndin er sú að íbúar bæjarins búa við verulegar tafir vegna gegnumumferðar sem er bílastraumur sem á ekkert erindi inn í bæinn heldur keyrir aðeins í gegnum hann á leið sinni annað.

Á fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs í dag var umferðargreining Reykjanesbrautar við Lækjargötu tekin til umræðu að nýju. Niðurstaðan er skýr: Ráðið gerir kröfu um að farið verði í ljósastýringu (metering) við hringtorgið á mótum Reykjanesbrautar og Lækjargötu til reynslu strax. Þessi krafa er ekki tilkomin fyrir tilviljun, heldur er hún niðurstaða margra ára vinnu og eftirfylgni þar sem við höfum lagt áherslu á að finna raunhæfar leiðir til úrbóta fyrir íbúa. Í þessu hagsmunamáli ríkir algjör pólitísk samstaða og standa allir fulltrúar í ráðinu þétt saman í þessari kröfu.

Tölurnar sýna alvarleika málsins

Nýjustu greiningar verkfæðistofunnar COWI og Vegagerðarinnar frá 2025 staðfesta þá þungu stöðu sem íbúar þekkja af eigin raun. Reykjanesbrautin klýfur bæinn og hamlar eðlilegu flæði innanbæjar. Gögn staðfesta að yfir 36.000 ökutæki fara um þennan kafla daglega, en meirihlutinn er gegnumumferð sem tefur verulega fyrir íbúum í Setbergi og við Lækjargötu. Á álagstímum árdegis eru biðraðirnar sláandi:

Lækjargata: Meðalbiðröðin er um 959 metrar.

Hlíðarberg: Meðalbiðröðin er um 912 metrar.

Þetta ástand er óþolandi fyrir íbúa og hrekur umferð inn í íbúðahverfi og um Flóttamannaveg, en tafir á Reykjanesbrautinni valda nú þegar auknu álagi þar.

Nauðsynleg bráðabirgðalausn

Krafist er ljósastýringar við hringtorgið sem fyrst, en hún myndi stytta biðraðir á hliðargötum úr ríflega 900 metrum í 60 metra. Þetta er nauðsynleg bráðabirgðalausn þar til framtíðarlausn Reykjanesbrautar fer í framkvæmd, hvort sem það verða göng eða önnur útfærsla, samkvæmt samgöngusáttmála.

Varanleg lausn samkvæmt er á áætlun í Samgöngusáttmála Höfuðborgarsvæðisins og fagna ég því að ábatagreining á þeim kostum sé á lokametrunum. Hins vegar geta íbúar ekki beðið án úrbóta fram að því. Við ætlum að halda þrýstingnum á Vegagerðina þar til þessi hnútur hefur verið leystur.

Hafnarfjörður á ekki að vera biðstofa fyrir gegnumumferð og það er kominn tími til að forgangsraða fólkinu sem hér býr.

Höfundur er bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs




Skoðun

Sjá meira


×