Enski boltinn

Kudus bætir gráu ofan á svart

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Mohamed Kudus hafði verið ljóstíra á myrku tímabili hjá Tottenham. 
Mohamed Kudus hafði verið ljóstíra á myrku tímabili hjá Tottenham.  Shaun Brooks - CameraSport via Getty Images

Þegar rignir þá dembir í Norður-Lundúnum. Mohamed Kudus mun ekki spila næstu þrjá mánuði og bætist við langan meiðslalista Tottenham, sem er í alls kyns vandræðum í ensku úrvalsdeildinni.

Kudus fór meiddur af velli í þarsíðasta leik, jafntefli gegn Sunderland og lærismeiðslin munu halda honum frá keppni þangað til í apríl allavega.

Nú þegar saknar Tottenham sóknarmanna á borð við James Maddison, Dejan Kulusevski og Dominic Solanke. Þá eru Rodrigo Bentancur og Lucas Bergvall líka að glíma við meiðsli. 

Það sást bersýnilega í 3-2 tapi liðsins gegn Bournemouth í gærkvöldi og tölfræðin sýnir að Tottenham er eitt versta lið deildarinnar sóknarlega séð. Þegar skot á markið, snertingar í teig andstæðinganna og vænt mörk eru talin er Tottenham í neðstu fimm sætum deildarinnar á öllum listum.

Liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu sex leikjum og situr í 14. sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Þjálfarinn Thomas Frank er á hálum ís og ekki skoraði hann mörg stig hjá stuðningsmönnum þegar hann sást drekka úr Arsenal kaffibolla í gærkvöldi.

Fyrirliðinn Christian Romero virðist síðan vera ósáttur við stjórnendur félagsins og saka þá um lygar, eins og kom fram í harðorðri færslu hans á samfélagsmiðlum sem hefur nú verið breytt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×