Skoðun

Ís­lenska velsældar­hag­kerfið: Stefnu­mörkun, á­skoranir og tæki­færi

Soffia S. Sigurgeirsdóttir, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir og Elva Rakel Jónsdóttir skrifa

Á undanförnum árum hefur hugtakið velsældarhagkerfi rutt sér til rúms í alþjóðlegri stefnumótun sem ný nálgun á efnahagslegan og samfélagslegan árangur. Í stað þess að leggja einhliða áherslu á hagvöxt sem mælikvarða á velgengni þjóðar, horfa ríki frekar til heildstæðari sýnar þar sem mannleg velsæld, heilsa, félagslegt réttlæti og sjálfbær nýting náttúruauðlinda eru í fyrirrúmi. Ísland hefur á síðustu árum tekið afgerandi skref í átt að slíkum efnahags- og samfélagsramma og staðsett sig sem eitt af leiðandi ríkjum í mótun og innleiðingu velsældarhagkerfis á heimsvísu.

Velsældarhagkerfi byggir á þeirri forsendu að árangur samfélags sé best mældur í gæðum lífs, ekki eingöngu efnahagslegum árangri. Ein helsta áskorun umbreytingar yfir í velsældarhagkerfi er að brúa bilið milli stefnumótunar og raunverulegra breytinga í lífi fólks. Það krefst skýrrar stefnumörkunar stjórnvalda, samhæfingar milli ráðuneyta, sveitarfélaga, stofnana og atvinnulífs.

Hér á landi hefur átt sér stað þróun sem á sér bæði pólitískar og fræðilegar rætur, þar sem þekking á sviði lýðheilsu, hagfræði, velferðarstefnu og umhverfisfræða hefur orðið sífellt samræmdari. Ísland hefur innleitt mælaborð velsældar sem styður við stefnumótun stjórnvalda og gefur dýpri innsýn í raunverulega lífsgæði landsmanna. Innleiðing velsældarviðmiða í opinbera stjórnsýslu skiptir sköpum og hefur þannig bein áhrif á hvernig ríkið skilgreinir árangur. Langtímamarkmiðið er að þessi nálgun verði hluti af daglegum vinnubrögðum og umgjörð í starfsemi hins opinbera. Þar skiptir gagnasöfnun, reglubundin eftirfylgni og skýr framsetning lykilmáli. Án traustra og aðgengilegra gagna verður erfitt að meta þróun eða áhrif nýrra aðgerða.

Ísland stendur þó vel að vígi til að takast á við þessar áskoranir. Smæð og gagnsæi kerfa gera tilraunastarfsemi og hraða innleiðingu mögulega, og sterk samfélagsvitund og almennt traust til stjórnsýslu eru mikilvægir hvatar. Þá er áherslan á forvarnir og heilsueflingu, sem mótar sífellt stærri hluta íslenskrar heilbrigðisstefnu, í takt við markmið velsældarhagkerfisins. Rannsóknir sýna að samfélög sem fjárfesta í félagsauði, menntun, jafnræði og náttúruvernd uppskera meiri langtímalífsgæði, betri lýðheilsu og sjálfbærari efnahagsþróun.

Ný atvinnustefna stjórnvalda styður jafnframt við þessa þróun með því að leggja áherslu á fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf sem skapar lífsgæði til lengri tíma fremur en skammtíma efnahagslega framleiðni. Í stefnunni er lögð rík áhersla á nýsköpun, græna umbreytingu, stafræna þróun, umhverfisvæna orkunýtingu og aukna verðmætasköpun í öllum helstu atvinnugreinum. Slíkar áherslur samræmast kjarnagildum velsældarhagkerfisins þar sem markmiðið er að byggja upp hagkerfi sem þjónar samfélaginu heildstætt, tryggir að gæði atvinnulífsins skili sér í betri heilsu, menntun og félagslegum stöðugleika og stuðlar að sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Með því að tengja horfur atvinnulífsins við mælanleg viðmið um samfélagslega velsæld verður atvinnustefnan jafnframt tæki til að efla samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi og styrkja stöðu landsins sem framsækins og ábyrgðs efnahagslífs.

Atvinnulífið hefur umtalsverðu hlutverki að gegna í umbreytingu yfir í velsældarhagkerfi. Fyrirtæki eru í síauknum mæli farin að átta sig á mikilvægi félagslegrar sjálfbærni og þeirrar umbreytingar sem er þörf til að mæta breyttri heimsmynd. Andspænis þáttum sem ógna rekstrarumhverfi, svo sem áhrif loftslagsbreytinga eða geopólitískur óstöðugleiki, skiptir enn meira máli að tryggja innri stöðugleika í rekstri. Slíkur stöðugleiki fæst ekki síst með því að efla velsældaráherslur. Þegar fyrirtæki huga að heildrænni velsæld í sinni stefnumótun hvort sem er í vinnuumhverfi, verðmætasköpun, nýsköpun eða þjónustu við samfélagið, verður sú nálgun hluti af þjóðhagslegri heildarmynd. Þannig getur einkageirinn bæði stutt við og hagnast á yfirfærslu yfir í velsældarhagkerfi.

Fram undan eru fjölmörg tækifæri til að dýpka og efla íslenska nálgun á velsæld. Þar má nefna frekari samþættingu velsældarviðmiða í sveitarstjórnarstigið, aukna þátttöku almennings í stefnumótun og samstarf við alþjóðlegar stofnanir sem vinna að sömu markmiðum. Með samstilltu átaki stjórnvalda, atvinnulífs, frjálsra félagasamtaka og almennings getur Ísland orðið leiðandi í að móta nýja hugsun um hvað telst raunverulegur árangur í samfélagi.

Íslenska velsældarhagkerfið er þannig bæði stefna og ferli, ferðalag sem felur í sér raunhæfa og skynsama, endurskilgreiningu á því hvað skiptir máli í lífi fólks. Með því að byggja á gögnum, samvinnu og skýrum gildum getur Ísland haldið áfram að þróa efnahagskerfi sem þjónar heildarhagsmunum samfélagsins og tryggir velsæld núlifandi og komandi kynslóða.

Soffia S. Sigurgeirsdóttir framkvæmdastjóri Langbrókar

Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Festu

Dóra Guðrún Guðmundsdóttir sviðsstjóri lýðheilsu embættis landlæknis




Skoðun

Sjá meira


×