Erlent

Segir Kúbu að semja áður en það verður of seint

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Donald Trump á blaðamannafundi fyrir helgi.
Donald Trump á blaðamannafundi fyrir helgi. AP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hvetur stjórnvöld í Kúbu til að semja við Bandaríkjamenn, ellegar muni Kúbverjar ekki lengur hafa aðgang að olíu og gjaldeyri frá Venesúela.

Trump hefur beint sjónum sínum að Kúbu eftir handtöku Maduro í Venesúela í upphafi árs, og haft uppi hótanir í garð þeirra á samfélagsmiðlum.

Kúba og Venesúela hafa lengi verið samherjar og hafa mikil viðskipti verið milli landanna.

Talið er að um 35 þúsund tunnur af olíu séu ferjaðar frá Venesúela til Kúbu dag hvern.

Haft er eftir utanríkisráðherra Kúbu á vef BBC að hann telji Kúbu hafa rétt á því að flytja inn olíu frá hverjum sem er, án afskiptasemi Bandaríkjanna.

Bandaríkjamenn hafa verið að taka yfir stjórn olíuflutningaskipa í Karíbahafinu, sem talin eru bera olíu frá Venesúela en sigla undir fölsku flaggi.

Á föstudag tóku þeir yfir fimmta olíuskipið af þessu tagi og eru þeir sagðir líklegir til að taka yfir stjórn á fleiri skipum á næstunni, en allavega sextán olíuflutningaskipum hefur verið siglt frá Venesúela á undanförnum vikum.

Þessar aðgerðir hafa þegar haft gríðarlega neikvæð áhrif á efnahag Kúbu, en þar ríkir þessa dagana mikill orkuskortur.

„Kúba lifði árum saman á mikilli olíu og peningum frá Venesúela. Í staðinn veitti Kúba síðustu tveimur einræðisherrum Venesúela aðstoð á sviði leyniþjónustu, EN EKKI LENGUR!,“ sagði Trump í færslu á samfélagsmiðlum.

„Kúba fær ekki lengur olíu eða peninga, ekkert. Ég legg til að þeir semji við okkur, áður en það verður of seint!,“ sagði Trump.

Skjáskot



Fleiri fréttir

Sjá meira


×