Erlent

Milljónir Banda­ríkja­manna hafi þungar á­hyggjur vegna Græn­lands

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Shaheen segist ekki hafa trú á því að verstu sviðsmyndir rætist varðandi Grænland. Andstaða sé við málið meðal almennings í Bandaríkjunum og Trump fylgist vel með skoðanakönnunum.
Shaheen segist ekki hafa trú á því að verstu sviðsmyndir rætist varðandi Grænland. Andstaða sé við málið meðal almennings í Bandaríkjunum og Trump fylgist vel með skoðanakönnunum. Getty/Anadolu/Nathan Posner

„Ég er hér í dag vegna þess að milljónir Bandaríkjamanna hafa þungar áhyggjur af orðræðunni um yfirtöku Bandaríkjanna á Grænlandi, annað hvort með því að kaupa landið eða beita hervaldi,“ sagði öldungadeildarþingmaðurinn Jeanne Shaheen nú fyrir hádegi.

Shaheen, sem er Demókrati og situr í utanríkismálanefnd öldungadeildar bandaríska þingsins, er stödd í opinberri heimsókn í Danmörku ásamt þverpólitískri sendinefnd, til að sýna Dönum og Grænlendingum stuðning.

Shaheen sagði alla öldungadeildarþingmennina í sendinefndinni styðja samband Bandaríkjanna og Danmerkur og Atlantshafsbandalagssamstarfið. Þá sagði hún orðræðu ráðamanna í Washington ekki aðeins til þess fallna að grafa undan sambandi Bandaríkjanna við Danmörku og Grænland heldur stuðla að sundrung innan Nató á tímum þegar andstæðingar bandalagsins leituðu allra leiða til að nýta sér það.

Þingmaðurinn sagði yfirlýsingar Donald Trump Bandaríkjaforseta um yfirtöku á Grænlandi koma niður á því trausti sem komist hefði á milli bandamanna síðustu áratugi.

„Ef okkur er alvara um að takmarka áhrif Rússlands á Norðurslóðum og annars staðar þá er áhrifaríkasta leiðinn til þess að sigra Vladimir Pútín í Úkraínu og það er nákvæmlega þess vegna sem það er ekkert vit í þessari umræðu um Grænland,“ sagði hún.

Shaheen sagði að Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, hefði staðfest að það stæði ekki á Dönum ef Bandaríkjamenn vildu ráðast í framkvæmdir á Grænlandi, hvort sem það varðaði frekari hernaðaruppbyggingu eða námuvinnslu.

Hún ítrekaði að það stuðlaði ekki að öryggi Bandaríkjamanna né Dana að rífa niður heimsskipanina eins og hún væri í dag. Það væri aðeins til hagsbóta fyrir einræðisherra í Moskvu og Pekíng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×